Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bylgjan jafnlöng fyrstu bylgju og gengur hægt niður

10.09.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Thor Aspelund prófessor og lýðtölfræði segir að önnur bylgja faraldursins sé jafnlöng þeirri fyrstu og að það komi honum á óvart hvað hún gangi hægt niður. Það er seigt í þessu, segir hann.

Ótrúlegt hvað veiran endist í þjóðfélaginu

Spálíkan Háskóla Íslands fyrir viku gerði ráð fyrir einu til fimm kórónuveirusmitum á dag. Nýja líkanið, 10. sept., gerir ráð fyrir einu til fjórum smitum.

„Þetta er á svipuðum nótum, heldur eitthvað lækkandi samt,“ segir Thor Aspelund.

Hann segir að vonandi verði aðeins fleiri dagar þar sem engin smit greinast.

„Þetta er hægara en ég bjóst við. Ég bjóst einhver veginn við að þau færu hraðar niður. Sko, bylgjan er að verða alveg jafnlöng, það stefnir í það, eins og fyrsta bylgjan. Hún bara fer ekki eins hátt. Þannig að það er ótrúlegt hvað veiran endist lengi einhvern veginn í þjóðfélaginu.“

Bylgjan varir fram í október

Mesti kúfurinn í fyrstu bylgjunni varði í tvo mánuði og um eina til tvær vikur. Um 8. maí datt þetta niður, segir Thor. Þá hafi komið hlé og svo miði hann við að önnur bylgja hafi farið að rísa 23. júlí þó einstaka smit hafi komið inn á milli í sumar.

„Við erum að reikna með því, því miður, að þetta varir alveg inn í október. Þannig að hún er búin að vera sem sagt tvo mánuði plús. Þannig að það er eins og það sé svona seigt í þessu.“ 

Fólk hefur lært á veiruna

Það sem er ólíklegt með þeim er að margfalt fleiri smit greindust í þeirri fyrstu. 

„Við erum ekki að flytja inn mikið af smitum [núna] sem betur fer af því að við erum með aðgerðir. Og auðvitað hefur fólk eitthvað lært á veiruna. Það er auðvitað handþvotturinn og tveggja metra reglan, sem er núna orðin einn metri. Það skilar árangri.“