„Alveg furðulegt hvernig þetta raðast“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Alveg furðulegt hvernig þetta raðast“

10.09.2020 - 17:02
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, segir alveg furðulegt að það geti raðast svo að Ísland og Portúgal spili þrjá keppnisleiki í tveimur mismundandi keppnum á átta dögum í janúar.

„Ja, það er bara eins og það er,“ sagði Guðmundur aðspurður um leikjaplan HM sem var gefið út í dag. Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik, svo Alsís og loks Marokkó.

„Við erum nú ýmsu vanir. Við mættum heims- og Ólympíumeisturunum í fyrsta leik á EM í fyrra og það gekk vel. Portúgal er hins vegar líka með gríðarlega sterkt lið og voru það svosem á EM líka,“ segir Guðmundur. Ísland lagði Portúgal á EM í Svíþjóð en Portúgal endaði svo í fimmta sæti mótsins.

Áður en kemur að HM mætast Ísland og Portúgal heima og að heiman í undankeppni EM 2022 í janúar. Liðin leika því þrjá keppnisleiki á átta dögum í tveimur mismunandi keppnum.

„Það er alveg furðulegt hvernig þetta raðast, það verður áhugavert að sjá hvernig þetta kemur út. Ég hef aldrei lent í þessu áður á ferlinum,“ segir Guðmundur. 

Hann viðurkennir að fá leyndarmál verði milli liðanna þegar kemur að leiknum á HM. Hann segir enda fátt óvænt vera í leik Portúgal. Stór hluti liðsins spili með Porto í heimalandinu og spili þar svipaðan leik og með landsliðinu. Þeir búi að því.

„Þeir spila mikið sjö á móti sex með Porto og með landsliðinu og það er forskot fyrir þá að vera svona vel samspilaðir. Það gerir þá að erfiðum andstæðingi.“

Allt erfiðir leikir í nútíma handbolta

Ísland og Portúgal mætast 14. janúar og svo mætir Ísland Alsír 16. janúar og loks Marokkó 18. janúar. Alsír tók brons í síðustu Afríkukeppni og Marokkó varð í sjötta sæti.

„Bæði Alsír og Marokkó eru mjög frambærileg lið, þannig er handboltinn bara í dag. Þau geta bæði spilað virkilega vel á sínum degi. Handboltinn í dag er þannig að það er allt krefjandi verkefni. Það er ekkert gefins í þessu.“

„Ég hef sagt það oft áður og get alveg sagt það aftur. Þetta eru allt hættulegir andstæðingar. Ef þau ná sér á strik og er gefið tækifæri þá eru þau hættuleg. Þetta verður skemmtilegt verkefni,“ segir Guðmundur Guðmundsson.

Tengdar fréttir

Handbolti

Mætum Portúgal í fyrsta leik HM 2021