Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Verðum komin með bóluefni í byrjun næsta árs“

09.09.2020 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segist enn vera mjög bjartsýnn á að bóluefni við COVID-19 verði komið á markað í byrjun næsta árs, þrátt fyrir að lyfjafyrirtækið AstraZeneca hafi ákveðið að fresta tilraunum vegna veikinda eins sjálfboðaliða.

Bóluefni AstraZeneca er unnið í samstarfi við Oxford háskóla og er ekki komið með markaðsleyfi í Evrópu. Bóluefnið var á lokastigum prófana og voru vonir bundnar við að hægt yrði að taka það í notkun í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.

„Það er lítill vafi á því að þetta mun tefja eða lengja tímann þangað til akkúrat þetta bóluefni kemst á markað. Nú verða menn að setjast niður og skoða hvað gerðist hjá þessum einstaklingi. Þarna er um að ræða einn einstakling af tiltölulega stórum hópi manna. Og þó þú takir þátt í klínískum tilraunum á bóluefni þá ver það þig ekki gegn alls konar hlutum sem geta gerst í þínu lífi. Þannig að nú verða menn í fyrsta lagi að sýna fram á að þetta sé af völdum bóluefnisins og síðan taka ákvörðun um hvort það þýði að þetta bóluefni skuli ekki þróa lengra,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári segir viðbúið að svona geti gerst þegar bóluefni eru í þróun.

„Það væri mjög óvanalegt ef þú ert með svona mörg verkefni í gangi til þess að búa til bóluefni gegn einum sjúkdómi að það kæmu ekki upp nokkur tilvik af þessari gerð þegar menn eru á leið frá byrjun til enda. Þannig að þetta kemur ekki á óvart. En þetta er grábölvað og maður hefði vonast til þess að þetta myndi ekki gerast, en þetta gerðist,“ segir Kári.

Hann telur miklar líkur á því að bóluefni við COVID-19 verði komið á markað í byrjun næsta árs.

„Það eru hins vegar að minnsta kosti níu önnur stór verkefni í gangi við að búa til bóluefni gegn þessari veiru. Þannig að jú, þetta hefur svolítil áhrif. Þetta er eitt af þeim bóluefnum sem að menn bundu mestar vonir við og þetta er það bóluefni sem íslensk yfirvöld hafa haft í sinni augsýn þannig að þetta breytir málum svolítið en ég er enn mjög bjartsýnn á að við verðum komin með bóluefni á markað í byrjun næsta árs,“ segir Kári.