Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þorsteinn ósáttur við spurningar um Afríkustarfsemi

09.09.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögmaður Seðlabanka Íslands sýndi Afríkustarfsemi Samherja og fyrirtækjum útgerðarinnar á Kýpur, og skilum á gjaldeyri þaðan, sérstakan áhuga í aðalmeðferð skaðabótamáls Samherja gegn Seðlabankanum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Forstjóri Samherja sagði þau atriði málinu óviðkomandi, enda hefði húsleit og rannsókn Seðlabankans, sem málið nú snýst um, varðað meinta undirverðlagningu á fiski. Þorsteinn barði í borð undir spurningunum og dómari bað menn að halda stemmningunni við stofuhita.

Blaðamönnum leyft að sitja í dyragættinni

Aðalmeðferðin hófst klukkan níu í morgun í dómsal 202 í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem tekur ekki nema samtals tíu manns í sæti, að meðtöldum málsaðilum, lögmönnum og dómara. Aðeins var rými fyrir fáeina gesti, sem fylltist fljótt, og því sáu allir blaða- og fréttamenn sem mættir voru í réttinn fram á að geta ekki fjallað um það sem fram fór. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af aðalmeðferinni var leyst úr þessari stöðu með því að opna dyrnar inn í salinn og leyfa fréttamönnum að sitja við gættina. Þangað heyrðust orðaskiptin í salnum að stærstum hluta.

Krefjast tæplega 320 milljóna í skaða- og miskabætur

Dómsmálið varðar þá ákvörðun Seðlabankans að sekta Samherja um 15 milljónir fyrir meint brot á gjaldeyrislögum, en sektin var afturkölluð eftir að í ljós kom að engin gild refsiheimild var til staðar í lögunum. Samherjamenn hafa alla tíð verið afar gagnrýnir á málsmeðferð Seðlabankans. Í málinu krefst Samherji 306 milljóna í skaðabætur og 10 milljóna í miskabætur. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, fékk 1,3 milljóna króna sekt fyrir sömu sakir, en hún var einnig afturkölluð. Hann hefur líka stefnt Seðlabankanum og krefst fimm milljóna í skaðabætur og einnar og hálfrar milljónar í miskabætur. Réttað verður í því máli eftir hádegi, og þá í stærri sal.

Óttuðust að missa hugsanlega fyrirtækið 

Þorsteinn Már var fyrstur í vitnastúku í dag í máli Samherja. Hann sagði að bótakrafa Samherja væri hófleg, kostnaðurinn af málinu væri ábyggilega miklu hærri. Hann sagði Seðlabankann hafa farið fram í málinu með vilja til að skaða Samherja. „Við vorum hræddir um að við mundum hugsanlega missa fyrirtækið,“ lýsti hann, að hans sögn vegna grófra og rangra fullyrðinga bankans, sem hafi bitnað á orðspori hans hjá viðskiptavinum og lánardrottnum.

Þorsteinn lýsti því að hluti bótakröfunnar sneri að launum fyrir lögmanninn Örnu McClure, sem hefði sérstaklega verið ráðin til fyrirtækisins til að sinna málinu. Þá er krafist launa fyrir fyrrverandi fjármálastjóra félagsins í tiltekinn tíma, en Samherjamenn fullyrða að hann hafi farið í veikindaleyfi vegna málsins og þess hversu mjög það tók á hann. Þá lýsti Þorsteinn Már því að menn hafi hálfvegið verið teknir í fangelsi í húsleit bankans og ekki getað unnið vinnuna sína.

Spurði um 50 milljarða sölu hjá Kötlu Seafood 

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans í málinu, hóf spurningar sínar til Þorsteins á því að segjast vilja skilja málið betur. Hann spurði um félagið IceFish og hvað réði því hvaðan hann fengi reikning ef hann keypti fisk af IceFish. Þorsteinn brást illa við þessum spurningum og sagði þær ekki koma málinu við. „Ég er svo vanur útúrsnúningum frá Seðlabankanum, ég þekki ekkert annað,“ sagði Þorsteinn Már.

Jóhannes Karl spurði um skilaskyldan gjaldeyri Samherja og vitnaði til rannsóknarskýrslu Seðlabankans, sem Þorsteinn var óánægður með, enda er augljóst að hann gefur ekki mikið fyrir það skjal. Jóhannes spurði um félagið Kötlu Seafood Ltd. á Kýpur, sem selt hefði fyrir röska 50 milljarða á tímanum sem var undir í rannsókninni. Jóhannes vildi vita hvað fyrirtækið hefði selt og hverjum.

Dómari bað um stofuhita þegar Þorsteinn barði í borðið

Þorsteinn Már svaraði því að fyrirtækið hefði selt fisk sem veiddur væri í Afríku, allan til Afríku. Jóhannes sagði að kenning Seðlabankans við rannsóknina hefði verið að Katla Seafood hefði haft raunverulega starfsemi á Íslandi og borið að skila öllum gjaldeyri hingað. Samherji hefði verið sakaður um að skila ekki 85 milljörðum af skilaskyldum gjaldeyri og Jóhannes spurði hvort það væri rétt skilið að 50 milljarða af þeirri upphæð mætti rekja til Kötlu Seafood.

„Ég fer fram á að þú farir rétt með,“ sagði Þorsteinn þá og barði í borðið. Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari í málinu, greip þá inn í. „Við skulum bara halda þessu við stofuhita hérna,“ sagði hann. Þorsteinn afsakaði sig og hélt áfram að svara. Hann benti á að þeir hefðu á þessu tímabili skilað 103-104 milljörðum af gjaldeyri, ekki 85 eins og Jóhannes hafði upp úr skýrslu Seðlabankans.

Sagðist ekki muna hvað félagið gerði

Jóhannes spurði áfram um Kötlu Seafood og vildi vita hvort þar ynni einhver sem seldi fisk. „Eru einhverjir sem taka upp símann þar og selja fisk?“ Þorsteinn svaraði því að þjónustusamningar hefðu verið gerðir um að sum verkefni væru unnin annars staðar en þar sem félagið væri með skrifstofu, en að starfsemi félagsins hefði ekki verið á Íslandi.

Jóhannes spurði þá um annað félag, sem hefði verið hitt stóra málið í rannsókn Seðlabankans: Axel ehf., sem áður hét Katla Seafood ehf. „Hvað gerði þetta félag?“ spurði Jóhannes. Þorsteinn sagðist ekki skilja hvað það kæmi málinu við, en þegar dómari brýndi hann til svara sagðist Þorsteinn ekki muna það.

Sagði spurningar Seðlabankans byggðar á getgátum

Jóhannes sagði að félagið hefði haft tæpa 14 milljarða í tekjur á tímabilinu sem undir hefði verið í rannsókninni en aðeins skilað rúmum milljarði til Íslands. Þarna var Þorsteinn búinn að fá nóg – sagði að ástæða húsleitar Seðlabankans hjá Samherja í mars 2012 hefði verið grunur um að Samherji hefði selt fisk á undirverði. Það væri alveg nýtt að Seðlabankinn gripi þátt sem búið væri að rannsaka, getgátur sem ekki kæmu málinu við, og gerðu að aðalatriði. Það væri ný fullyrðing bankans. Seinna, þegar hann svaraði spurningum lögmanns Samherja, Garðars Gíslasonar, benti hann á að sérstakur saksóknari hefði í rannsókn sinni komist að þeirri niðurstöðu að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni að skila gjaldeyri til Íslands og hefði meira að segja skilað 300 milljónum umfram skyldu.

Katla Seafood skuldaði Þorsteini pening

Að síðustu spurði Jóhannes hvort Þorsteinn hefði sjálfur fengið persónulegar greiðslur frá Kötlu Seafood. Þorsteinn játti því. „Það liggur fyrir að þeir skulduðu mér pening,“ sagði hann.

Að lokinni skýrslutöku yfir Þorsteini var tekin skýrsla af Örnu McClure, lögmanninum sem var ráðinn inn til Samherja þegar Seðlabankamálið stóð sem hæst. Spurningarnar til hennar snerust að langmestu leyti um það í hverju störf hennar og annarra lögmanna fyrir félagið hefði verið fólgin, kostnað og tímaskýrslur.

Talaði svo lágt að blaðamenn heyrðu ekki svör  

Á eftir henni settist í vitnastúkuna Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi starfsmaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Hann talaði svo lágum rómi að lítið sem ekkert heyrðist út til fréttamanna, uns til stóð að spyrja hann um sitthvað sem bankaleynd gildir um. Þá yfirgáfu allir dómsalinn nema lögmennirnir tveir, dómarinn og vitnið, og hurðinni var lokað í bili. Til stóð að aðalmeðferð fyrra málsins lyki á hádegi.