Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þakklátur að geta verið samkynhneigður og ráðherra

Mynd: RÚV / RÚV

Þakklátur að geta verið samkynhneigður og ráðherra

09.09.2020 - 13:28

Höfundar

„Mér finnst mikilvægt að brosa og auðveldara að fara í gegnum daginn ef ég brosi slatta.“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sem í æsku jafnan kallaður Mummi af Mýrunum. Hann er sveitastrákur í húð og hár og hefur alla tíð starfað við umhverfisvernd sem er honum einkar hugleikin.

Guðmundur Ingi er hann alinn upp í mikilli náttúruparadís og segir hann uppeldið í sveitinni hafa kennt sér að njóta og skilja hvers virði náttúran sé. Hann segir okkur Íslendinga of oft hafa nálgast umhverfið allt of ógætilega en umfangsmiklar framkvæmdir á hálendinu segir hann án vafa stærstu mistökin. „Eins og til dæmis Kárahnjúkavirkjun. Ég held það sé stærsta skarðið sem við höfum gert í íslenska náttúru,“ segir hann. Hann telur landsmenn þó hafa lært að hugsa betur um umhverfið og fagnar því að hugsað sé í grænum lausnum í síauknum mæli. „Núna erum við að undirbúa þjóðgarða á hálendinu þar sem verða til græn störf. Svo er allt það sem snýr að loftslagsmálum, sorpinu og úrganginum. Ég held að það horfi allt til betri vegar.“

Hann er utanþingsráðherra sem þýðir að hann var ekki kosinn á þing og minnist hann þess hve hissa hann var þegar Katrín Jakobsdóttir hringdi í hann og bauð honum óvænt ráðherrastarf. „Það var pínu spes og kom á óvart en ég var náttúrulega bara ánægður og auðmjúkur að vera treyst fyrir því að vera ráðherra.“ Og hann er líka þakklátur fyrir þá staðreynd að það sé ekki tiltökumál hér á landi að hann sem ráðherra sé samkynhneigður. „Mér finnst frábært að það sé ekkert mál en ég held það sé alveg mál fyrir suma. Það eru enn fordómar í samfélaginu en maður á rosalega mikið að þakka þeim sem ruddu brautina.“ Víða um heim sætir hinsegin fólk enn ofsóknum og það finnst honum átakanlegt. „Ég var að lesa í morgun að forsetaframbjóðendur í Póllandi vilji banna samkynhneigðum að ættleiða börn og við erum að sjá víða bakslag í baráttu hinsegin fólks og alveg ótrúlega fordóma. Maður óttast bakslag svo við þurfum alltaf að vera á tánum.“

En þó Mummi af Mýrunum hafi stundum áhyggjur af náttúrunni og mannréttindum þá er hann oftast með bros á vör. „Mér finnst mikilvægt að brosa og auðveldara að fara í gegnum daginn ef ég brosi slatta.“

Andri Freyr Hilmarsson ræðir við Guðmund Inga Guðbrandsson í Með okkar augum sem er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20. Hægt er að horfa á eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

Stoltastur af að hafa ekki gefist upp

Íþróttir

„Var aldrei viss um að ég væri nógu góður“

Tónlist

„Við erum alveg með skrímsli á heilanum“