Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Það eru nokkrar grindur eftir í þessu hlaupi“

09.09.2020 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Þróun bóluefnis við Covid-19 hefur gengið fádæma vel til þessa, segir Magnús Gottfreðsson prófessor í smitsjúkdómalækningum. Hann er enn bjartsýnn á að bóluefni verði tekið í notkun á fyrri hluta næsta árs, þótt tilraunir AstraZeneca tefjist. Pólitískur þrýstingur, til dæmis í Bandaríkjunum, kunni þó að trufla verkefnið.

Það varð uppi fótur og fit þegar bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca, sem vinnur að framleiðslu bóluefnis við COVID nítján, sagðist hafa gert hlé á tilraunum vegna veikinda eins sjálfboðaliðans. Bandaríska stórblaðið New York Times segir hann hafa fengið taugabólgur við mænuna. Miklar vonir hafa verið bundnar við þróun þessa bóluefnis, sem kennt hefur verið við Oxford í Bretlandi. 

Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómalækningum við Háskóla Íslands, segir að enn sé of lítið vitað um þessi veikindi sjálfboðaliðans, og hvort þau tengist bóluefninu, til að meta hvort þau setji raunverulegt strik í reikninginn: „Við vitum ekki hvort viðkomandi fékk virka efnið, þ.e.a.s. virka bóluefnið sem verið er að prófa, eða hvort hann var í samanburðarhópnum, það hefur ekki komið fram. Og það á algerlega eftir að skoða hvort einhver orsakatengsl séu þarna á milli, því að svona bólgur geta komið fram af öðrum ástæðum."

Því eigi mörg kurl eftir að koma til grafar áður en hægt verði að draga ályktanir af veikindunum.

„Ég myndi giska á að þetta gæti tafið vinnuna um tvær til fjórar vikur,“ segir Magnús.

„Við þolum ekki mikla áhættu“

Oxford-bóluefnið er eitt þeirra sem sænsk stjórnvöld hafa milligöngu um að selja til Íslands og Noregs, í tengslum við samning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við lyfjafyrirtækið. Magnús segir að Íslendingar hafi aðgang að mörgum öðrum bóluefnum, sem einnig séu langt komin í rannsóknum, bæði þar sem svipaðri nálgun sé beitt og einnig þar sem allt önnur aðferð er viðhöfð.

„Það er alveg ljóst að í rannsóknum af þessum toga koma alltaf upp einhver óvænt atvik. Þetta hefur gengið fádæma vel fram að þessu, og það má alveg gera ráð fyrir því að í flóknum og fjölmennum rannsóknum eins og þarna er um að ræða - það voru komnir 17.000 þátttakendur í þetta verkefni þegar hlé var gert á henni - og auðvitað þegar maður er að skoða svo fjölmennan hóp er ýmislegt sem gerist í lífi fólks, fólk veikist og lendir í slysum,“ segir Magnús.

Því sé beinlínis gert ráð fyrir því að gert sé hlé á svona rannsóknum ef eitthvað kemur upp á, svo hægt sé að fara yfir öll gögn og kanna hvort rekja megi atvikið til tilraunarinnar. 

„Hagsmunamatið tekur mið af því að við erum að gefa hraustu fólki efni til að koma í veg fyrir eitthvað sem gæti mögulega gerst. Þannig að við þolum ekki mikla áhættu þegar við erum í slíkri stöðu.“

Pólitískur þrýstingur gæti truflað

Lyfjaframleiðendur víða um heim hafa sammælst um að vinna saman að því að finna bóluefni við COVID-19, framleiða það og dreifa án þess að hafa hagnaðarsjónarmið í forgangi, og gæta þess að virða ítrustu vísindalegar og siðferðislegar kröfur við vinnuna. Á sama tíma ríkir samkeppni, bæði milli fyrirtækja og þjóðríkja, að verða fyrst til að finna bóluefni.

„Þótt enn hafi ekkert bóluefni verið skráð eða komið í almenna notkun, þá hafa margvísleg hraðamet verið slegin nú þegar í öllu þessu þróunaferli, samstarf á milli fyrirtækja og þjóðríkja, og svo framvegis. Strax þar hefur réttur tónn verið sleginn. En hins vegar er líka ljóst að það er ansi mikill pólitískur þrýstingur, og það getur truflað svona viðkvæmt verkefni eins og bóluefnaþróun og -prófun er,“ segir Magnús.

Yfirlýsingar Donalds Trumps um að bóluefni verði komið í notkun fyrir forsetakosingarnar í Bandaríkjunum í nóvember séu dæmi um þetta. 

„Og það er einmitt þess vegna að það er mjög mikilvægt að vísindasamfélagið sem kann best til verka verði ekki þvingað til að veita afslátt af þessum vinnubrögðum sem eru þrautreynd, og við þurfum að halda áfram að styðjast við þau.“

Það er gott að vera bjartsýnn

Magnús kveðst telja að það sé gott að vera bjartsýnn, og segir raunhæft að gera ráð fyrir sviðsmynd þar sem bóluefni verður komið í notkun á fyrri hluta næsta árs. Oxford-bóluefnið sé ekki það eina sem sé komið langt í þróun.

„Það eru samt nokkrar grindur eftir í þessu hlaupi, og það þarf allt að ganga upp til að það gerist,“ segir Magnús.

Hann telur þó ekki sennilegt að veröldin verði söm og áður eftir að bóluefnið verður komið í almenna notkun.

„Ég vona auðvitað að við getum farið að kyssast og knúsast sem fyrst aftur, en það er bara svo margt sem hefur breyst á þessum stutta tíma. Ég held að fólk hafi tileinkað sér margt sem muni ekki breytast þótt bóluefni komi til síðar,“ segir Magnús og nefnir skipulag vinnu, fjarvinnu og slíkt. 

„En ég held að margt muni lifa áfram með fólki, eins og handþvottur og að virða fjarlægðarmörk, mæta ekki veikur í vinnuna og slíkt. Þannig að ég hef trú á því að það muni lifa áfram í einhvern tíma, að minnsta kosti,“ segir Magnús Gottfreðsson.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV