Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíar auka framlög til heilbrigðismála um 300 milljarða

09.09.2020 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Sænska ríkisstjórnin tilkynnti á mánudag að framlög til heilbrigðismála verða aukin um tugi milljarða, enda mikið álag á heilbrigðiskerfi landsins vegna COVID-19. Faraldurinn virðist í rénun í Svíþjóð en heilbrigðisstarfsfólk er margt úrvinda og biðlistar eftir læknisþjónustu lengjast og lengjast.

Hátt í sex þúsund látnir

Tuttugu milljarðar sænskra króna, jafnvirði um 300 milljarða íslenskra króna, er aukaframlag sænska ríkisins til heilbrigðisþjónustu í landinu á næsta ári. Það á að stytta biðlista eftir aðgerðum, bæta heilbrigðisþjónustu fyrir eldri borgara og verja tugum milljarða í að mennta ófaglært fólk sem þegar vinnur innan heilbrigðiskerfisins og ráða það svo í fullt starf. 

Ekki veitir af. Kórónuveirufaraldurinn hefur nú kostað hátt í sex þúsund mannslíf í Svíþjóð. Langflestir hinna látnu voru eldri borgarar, og smitin meðal annars rakin til þess hve illa hjúkrunarheimili eru mönnuð og hve margt fólk vinnur í afleysingum eða á vegum starfsmannaleiga, á hjúkrunarheimilunum og í heimahjúkrun.

Biðlistar eftir aðgerðum, sem voru langir áður en faraldurinn braust út, hafa lengst enn. Í Svíþjóð hafa yfirvöld gefið út ákveðið loforð til fólks um að ef það þarf nauðsynlega á meðferð eða aðgerð að halda, eigi að framkvæma hana innan 90 daga. Raunin er þó önnur. Í Stokkhólmi þarf nær helmingur fólks að bíða lengur en þrjá mánuði eftir meðferð. Og biðlistar hafa lengst mjög síðustu mánuði, um allt land.

Fleiri smit í Danmörku

En faraldurinn er samt vonandi í rénun. Síðustu vikur hefur að jafnaði aðeins verið tilkynnt um einstaka dauðsföll á sólarhring, samanborið við tugi, stundum yfir hundrað, í vor. Fimm þúsund, átta hundruð, þrjátíu og átta hafa nú látist úr sjúkdómnum í Svíþjóð, margfalt fleiri en í grannlöndunum. En farsóttin virðist ekki nándar nærri eins skæð og fyrir nokkrum mánuðum. Alls liggja nú þrettán manns á gjörgæslu með COVID-19 í landinu öllu.

Í fjölmiðlum er sagt frá því að síðustu daga hafi fleiri smit greinst í Danmörku en Svíþjóð, sé miðað við höfðatölu. Reyndar ekki tekið með í reikninginn að um fimmfalt fleiri hafi látist í Svíþjóð úr COVID-19 en í Danmörku, þ.e. heildarfjöldi smita í Svíþjóð er enn miklu, miklu hærri.

Eins og í vinnufangelsi

Í Stokkhólmi eru nú um 30 sjúklingar á sjúkrahúsum með COVID-19. Neyðarástandssamningur sem var virkjaður í byrjun apríl er ekki lengur í gildi. Samkvæmt neyðarástandssamningnum var vinnuvika heilbrigðisstarfsfólks á Stokkhólmssvæðinu lengd upp í 48 klukkutíma og hægt að kalla fólk út eða láta það vinna yfirvinnu í neyð. Um leið var tímakaup meira en tvöfaldað. Samningnum er ætlað að gilda í fjórar vikur, svo hægt sé að takast á við tímabundið neyðarástand. Í þetta skipti var hann í gildi í fimm mánuði. Og heilbrigðisstarfsfólk margt úrvinda.

„Þetta hefur verið eins og vinnu-fangelsi,“ hefur hjúkrunarfræðingurinn Matilda Nygren eftir samstarfsmanni sínum. „Við höfum unnið 12-13 tíma á sólarhring, dag sem nótt. Verið í burtu frá fjölskyldunni og þetta hefur allt reynt mjög á.“

Nygren segir að sumir kollegar hennar hafi unnið hverja einustu helgi síðan í mars. Og nú séu margir að hugsa um að segja upp. Hún hafi heyrt að um 40 hafi sagt upp störfum á gjörgæslunni á Nýja Karólínska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, þar sem hún vinnur sjálf.

Svipaðar sögur berast víðar að. Ebba Gyberg, hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu í Danderyd, segir að margir kollegar hennar hafi ákveðið að segja upp. Ástæðan er ekki álag síðustu mánaða, heldur álag þar á undan.

Og það að ekkert útlit sé fyrir að starfsaðstæður batni á næstunni. Og hjúkrunarfræðingar hafa áhyggjur af öryggi sjúklinga.

Uppsagnir á næstunni

Þótt starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í Svíþjóð sé að komast aftur í venjulegra horf, þýðir það nefnilega ekki endilega að álagið sé að minnka. Og svo eru margir hræddir um að vírusinn gæti farið aftur að breiðast hratt út um samfélagið. Eru sjúkrahúsin í stakk búin fyrir það? Heilbrigðisstarfsfólk hefur margt lýst áhyggjum sínum af því í fjölmiðlum. Og það er einnig bent á að enn stendur til að segja upp fólki á Karólínska-sjúkrahúsinu, alls 266 manns, læknum og sjúkraliðum.

„Þessar uppsagnir eru eins og að vera kýldur í magann,“ sagði sjúkraliðinn Sara Nordin í samtali við sænska ríkissjónvarpið.

Sara Nordin sagði ótrúlegt að verið væri að gera þetta nú, eftir faraldurinn, og einmitt þegar svo langir biðlistar væru eftir heilbrigðisþjónustu og læknismeðferð. Og svo veit enginn hvort faraldurinn blossar upp á ný í haust.