Sveindís með stórleik í sigri Breiðabliks

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Sveindís með stórleik í sigri Breiðabliks

09.09.2020 - 21:59
Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þór/KA gerði góða ferð í bæinn og náði jafntefli gegn Þrótti, á Kópavogsvelli vann Breiðablik Stjörnuna.

Breiðablik er í harðri baráttu við Val um Íslandsmeistaratitilinn og eftir að Valur stal sigrinum á Selfossi í kvöld með marki á 90. mínútu vissu Breiðablikskonur að þær máttu ekki misstíga sig ef þær ætluðu að halda spennu í Íslandsmótinu.

Breiðablik komst yfir með skallamarki frá Sveindísi Jane Jónsdóttur eftir hornspyrnu á 16.mínútu en það var Stjarnan sem skoraði næsta mark. Eftir mikinn klaufagang í spili Breiðabliks komst Aníta Ýr Þorvaldsdóttir inn í sendingu og kláraði með þrumuskoti í netið. Staðan 1-1 og þannig var hún í hálfleik.

Sveindís Jane var svo aftur á ferðinni á 64.mínútu og aftur var það eftir horn, staðan 2-1 og Breiðablik með góð tök á leiknum. Sveindís fullkomnaði svo góðan leik hjá sér með því að leggja upp mark fyrir Rakel Hönnudóttir á 84.mínútu. 3-1 fyrir Breiðabliki lokatölur á Kópavogsvelli.

Breiðablik er sem stendur í öðru sæti stigi á eftir Val en á leik til góða.

Á Eimskipsvellinum mættust svo Þróttur og Þór/KA. Stephanie Ribeiro kom Þrótti yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en það var svo Heiða Ragney Viðarsdóttir sem jafnaði metin fyrir Þrótt snemma í síðari hálfleik. Ekki voru fleiri mörk skoruð og lokatölur því 1-1.