Snyrtivörulína Selenu Gomez styður við andlega heilsu

Mynd með færslu
 Mynd: BLACKPINK - YouTube

Snyrtivörulína Selenu Gomez styður við andlega heilsu

09.09.2020 - 14:34
Nýjasta útspil tónlistarkonunnar Selenu Gomez er snyrtivörulínan Rare Beauty. Markmiðið með línunni er að skora á fegurðarviðmið og reglur í samfélaginu en Gomez hefur tjáð sig opinskátt um áhrif slíkra viðmiða á andlega heilsu sína í gegnum tíðina.

Selena Gomez hefur verið lengi í sviðsljósinu, hún hóf ferilinn ung í barnaþáttunum Barney & Friends og í kjölfarið lék hún í Disney Channel þáttunum Wizards of Waverly Place. Fljótlega fór hún samhliða leiklistinni að gefa út tónlist, fyrst með hljómsveit og svo ein en samtals hefur hún gefið út sex plötur og átt átta lög á topp 100 Billboard listanum. Auk þess hefur hún notið mikils fylgis á samfélagsmiðlum og var á tímapunkti sá einstaklingur í heiminum sem var með flesta fylgjendur á Instagram. 

Á síðustu árum hefur Gomez farið að gera meira með fram tónlistinni, gefið út fatalínur og ilmvötn og talað opinskátt um baráttu sína við kvíða og þunglyndi. Hún er einn af aðalframleiðendum sjónvarpsþáttanna 13 Reasons Why þar sem andleg heilsa ungs fólks er eitt aðal umfjöllunarefnið. Nú hefur hún gefið út snyrtivörulínu, Rare Beauty, þar sem markmiðið er að skora á fegurðarviðmið samfélagsins. 

Í samtali við samfélagsmiðlastjörnuna og förðunarfræðinginn Nikki Tutorials sagði Gomez að útgáfa snyrtivörulínu hafi verið góð leið til að tengja við fólk sem finnur fyrir þeirri útlitspressu sem heimurinn setur á þau. „Ég vildi brjóta niður hina fullkomnu ímynd og þær hugmyndir um að við eigum að líta út á ákveðinn hátt, af því það er í lagi að líta út eins og maður lítur út.“

Hún segir viðhorf sitt til förðunar hafi breyst þegar hún fór að eiga samtöl við sjálfa sig og tala opinskátt um baráttu sína við kvíða og þunglyndi. Samtal hennar við aðdáendur hafi svo orðið til þess að hún áttaði sig á því að hún þyrfti að skora á fegurðarviðmið samfélagsins. „Ég varð orðlaus yfir því hversu mikið þessum ungu stelpum fannst að þær þyrftu að vera á einhvern ákveðinn hátt og ég vildi brjóta það form,“ bætir hún við. Markmiðið með Rare Beauty sé því að skora á fegurðarviðmið og móta jákvæða umræðu um sjálfsviðurkenningu og andlega heilsu. Hluti af sölu varanna fer í sjóð sem ætlað er að hafa áhrif á geðheilsuþjónustu, sérstaklega í þeim samfélögum þar sem lítil þjónusta er í boði.