Selur gjaldeyri til að sporna gegn veikingu krónunnar

09.09.2020 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Seðlabankinn tilkynnti í dag að hann ætli að hefja sölu á gjaldeyri úr gjaldeyrisvaraforða sínum í næstu viku. Selja á allt að 240 milljón evrur, andvirði 40 milljarða króna, út þennan mánuð. Þetta tilkynnti Seðlabankinn sama dag og Fréttablaðið greindi frá því að lífeyrissjóðir hygðust fara að fjárfesta aftur erlendis. Það höfðu þeir ekki gert í hálft ár samkvæmt samkomulagi við Seðlabankann sem var gert til að bregðast við efnahagsáhrifum COVID-19 faraldursins.

Markmiðið með samkomulagi Seðlabankans við lífeyrissjóðina um að þeir fjárfestu ekki erlendis var að koma í veg fyrir veikingu krónunnar.

Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans í dag hyggst bankinn selja gjaldeyri til að „auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun“. Markmiðið er samkvæmt því að koma á auknum stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Það á að gera með því að selja allt að þrjár milljónir evra á hverjum viðskiptadegi frá og með næsta mánudegi. 

Peningarnir sem Seðlabankinn leggur í gjaldeyrissöluna á næstu vikum eru lítill hluti af heildargjaldeyrisforðanum, 40 milljarðar af 973 milljarða gjaldeyriseign bankans.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi