Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Of lítill salur fyrir skaðabótamál Samherja

09.09.2020 - 10:06
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Aðalmeðferð skaðabótamála útgerðarfélagsins Samherja gegn Seðlabanka Íslands hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan níu í dag. Krafist er bóta fyrir fjárhagstjón og farið fram á að kostnaður vegna málareksturs Seðlabankans gegn Samherja verði bættur.

Fyrirtækið og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, telja að Seðlabankinn hafi brotið á sér þegar bankinn rannsakaði og lagði stjórnvaldssekt á Samherja, sem hæstiréttur ógilti síðar.

Þegar þinghald hófst í héraðsdómi var öllu fjölmiðlafólki sem ætlaði að fylgjast með aðalmeðferðinni vísað úr dómsalnum. Hefð er fyrir því að áberandi umfjöllunarefni dómstóla fari fram í stærri sölum til þess að sem flestir geti fylgst með þinghaldinu.

Vegna eins metra reglunnar sem gildir í dómsalnum eru aðeins örfáir sem fá að sitja inni í dómsalnum. Hurðin inn í dómsalinn hefur hins vegar verið opnuð svo fjölmiðlafólk geti fylgst með frammi á gangi.

Það er dómara í hverju máli fyrir sig að bóka sal fyrir þau mál sem þeir dæma í. Samkvæmt dagskrá dómstólsins er mál Samherja gegn Seðlabankanum tekið fyrir núna fyrir hádegi og mál Þorsteins Más gegn Seðlabankanum eftir hádegi. Þá verður þinghaldið í stærsta sal Héraðsdóms Reykjavíkur.

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV