Loftbrú brjóti múra á milli landsbyggðar og höfuðborgar

09.09.2020 - 20:36
Fagnað var á Egilsstaðaflugvelli í dag þegar Loftbrú var hleypt af stokkunum. Rúmlega 60 þúsund landsmenn sem búa fjarri höfuðborginni geta nú fengið innanlandsflug til Reykjavíkur niðurgreitt af ríkinu um 40 prósent, þrjár ferðir á ári.

Niðurgreiðslukerfi að skoskri fyrirmynd var tekið í notkun á Egilsstaðaflugvelli í dag. Kerfið nefnist Loftbrú og það var Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem pantaði fyrsta flugmiðann báðar leiðir í gegnum loftbrú.island.is. „Þetta átti að kosta mig um 38 þúsund að fara í borgina en kostaði mig 22 þúsund rúm með Loftbrúarafslættinum,“ segir Jóna Árný,

Hún vakti athygli á skosku leiðinni í blaðagrein 2016 og sat í stýrihópi um málið. Þá hafði mikill kostnaður við innanlandsflug komist í umræðuna ekki síst fyrir tilstilli hóps sem stofnaður var á Facebook og nefnist, Dýrt innanlandsflug – þín upplifun.

„Standist þá freistingu að hækka verð“

„Nýtið þetta einstaka tækifæri sem ykkur er gefið til að endurnýja samband ykkar við okkur notendur. Standist þá freistingu að hækka verð og leyfið viðskiptavinum ykkar að njóta niðurgreiðslunnar til fulls. Leggið áherslu á að bæta rekstur ykkar í gegnum aukna notkun og betri nýtingu,“ segja stofnendur hópsins Ívar Ingimarsson og Unnar Erlingsson í aðsendri grein á austurfrétt.is í dag.

Hátt verð ástæða þess að fólk flaug minna en ella

„Auðvitað munar fólk um það að lækka flugmiðann um 40 prósent. Það hefur komið í ljós á síðustu árum í ferðavenjukönnunum að ástæðan fyrir því að fólkið nýtir flugið minna heldur en ella er verðið, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra.

Ein ferð í ár en þrjár á ári eftir það

Niðurgreiðslan er aðeins í boði fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu og er aðeins fyrir þá sem ferðast í einkaerindum en er ekki ætluð fyrir vinnuferðir. Á þessu ári er hægt að fá niðurgreidda eina ferð til Reykjavíkur fram og til baka en eftir það þrjár ferðir eða sex flugleggi á ári. Árlegur kostnaður ríkisins við það er áætlaður 600 milljónir. 40 prósenta afslátturinn er veittur af verði flugmiðans í bókunarkerfum Air Iceland Connect, Ernis og Norlandair - sama hvort fólk hittir á dýrt eða ódýrt fargjald.

Undanþágur fyrir börn og námsmenn sem hafa flutt lögheimili

Unnið er að því að útfæra þjónustuna þannig að hægt verði að bóka lægri fargjöld fyrir framhaldsskólanem af landsbyggðinni sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og hafa fært lögheimili sitt tímabundið þangað geta notfært sér Loftbrúna. Einnig fyrir börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni.

Niðurgreiðslan geti brotið múr milli landsbyggðar og höfuðborgar

„Heilt yfir á landsbyggðinni munar þetta rosalega miklu fyrir fólk, hvort sem það eru fjölskyldur einstaklingar eða aðrir. Við þurfum að fara yfir langan veg til að sækja mögulega grunnþjónustu eða mögulega bara það sem höfuðborgin okkar hefur upp á að bjóða. Þess vegna er verðlag í flugi búið að vera hindrun fyrir þessi samskipti undanfarin ár og þetta er leið til þess að reyna að brjóta þá múra,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Til að nýta Loftbrú auðkennir fólk sig á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

Nánar er hægt að lesa um Loftbrú á loftbru.is

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi