Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynntust í söngleik á Selfossi

Mynd:  / 

Kynntust í söngleik á Selfossi

09.09.2020 - 09:17

Höfundar

„Þetta var í Grease Horror þar sem hann lék Frank Einar Stein og ég var Marta,“ rifjar Árný Fjóla Ásmundsdóttir Gagnamagnsmeðlimur og mannfræðingur upp um kynni hennar og Daða Freys tónlistarmanns. Þau voru í Fjölbraut á Suðurlandi þegar ástir tókust með þeim og nú búa þau í Berlín með dóttur sinni.

Árný Fjóla Ásmundsdóttir mannfræðingur, listakona og meðlimur Gagnamagnsins varð þekkt á Íslandi nánast á einni nóttu eftir að hún tók þátt í undankeppni Eurovision ásamt Daða Frey kærastanum sínum árið 2017. Þau höfnuðu í öðru sæti með lagið Hvað með það? sem fjallar um kynni Daða og Árnýjar. Þau mættu aftur í vor með nýtt lag og sigruðu undankeppnina og heiminn í kjölfarið. Lag þeirra Think about things var talið sigurstranglegt samkvæmt öllum veðbönkum og margir spáðu því að Íslendingar myndu loks upplifa langþráðan sigur eftir 34 ára eyðimerkurgöngu. Ekkert varð þó úr þeim sigri enda keppnin blásin af vegna COVID-19 faraldursins. Margir voru skúffaðir fyrir Íslands hönd og ekki síst fyrir hönd Daða, Árnýjar og Gagnamagnsins að hafa ekki fengið að sigla fyrsta sigri Íslands í höfn. Þau hafa sjálf hins vegar tekið örlögum sínum með æðruleysi og segjast þakklát fyrir þann meðbyr og athygli sem þau hafa upplifað í kjölfar þátttökunnar enda Daði er orðinn tónlistarmaður í fullri vinnu eftir vinsældir lagsins.

Þau búa og starfa í Berlín með dóttur sinni Áróru sem er eins og hálfs árs. Árný starfar sem leiðsögumaður en er einnig í fjarnámi í mannfræði við Háskóla Íslands. Felix Bergsson mælti sér mót við Árnýju í Berlín í þættinum Fram og til baka á Rás 2 þar sem Árný ræddi um uppvöxtinn í sveitinni, menntaskólaárin þegar hún kynntist Daða Frey og fimm uppáhalds dýrin sín í dagskrárliðnum Fimman. Meðal eftirlætisdýra Árnýjar eru kýr, eðlur og rottur sem parið hefur kynnst mun betur en þau kæra sig um í heimaborg sinni Berlín.

Foreldrar Árnýjar eru mjólkurbændur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem Árný bjó sín fyrstu ár. Fyrstu ár skólagöngu ungu sveitastelpunnar var hún í skóla í sveitinni en hún flutti á menntaskólaárum til ömmu sinnar sem býr á Selfossi. Þar gekk hún í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hún kynntist Daða. „Við kynntumst eiginlega mest í söngleik, við vorum mikið í leiklistinni saman. Það var í söngleiknum Grease Horror þar sem hann lék Frank Einar Stein og ég var Marta,“ rifjar Árný upp. Daði var tveimur árum á eftir henni í námi en þau smullu strax saman þegar hann byrjaði. „Það sameinast allir í leiklistinni,“ segir hún.

Árin í Fjölbraut á Suðurlandi voru meðal bestu ára lífsins í tilfelli Árnýjar. „Mér fannst lífið í FSU alveg minn tími og ofsalega gaman. Það týnast margir í svona fjölbrautakerfi en ég plumaði mig vel, ég var mikið í nemendaráðinu og í blaðinu að skrifa og þar var Daði líka,“ segir hún.

Felix ræddi við Árnýju í Fram og til baka á sunnudag. Hægt er að hlýða á allan þáttinn í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði tekur Jaja Ding Dong: „Í fyrsta og síðasta skipti“

Popptónlist

Daði Freyr á topp 40 í Bretlandi