Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Jarðarförin mín heillar heimsbyggðina

Mynd: Jarðarförin mín / Sjónvarp símans

Jarðarförin mín heillar heimsbyggðina

09.09.2020 - 11:10

Höfundar

Íslenska sjónvarpsþáttaröðin Jarðarförin mín er komin í lokakeppni Berlin TV Series Festival í Þýskalandi sem haldin verður síðar í mánuðinum. Þar keppir hún við þekktar þáttaraðir eins og Netflix-seríurnar þýsku Unorthodox og Perfect crime og hina austurrísku Freud, svo einhverjar séu nefndar.

Hörður Rúnarsson framkvæmdastjóri Glassriver, sem framleiddi Jarðarförina mína, segir að hópurinn sem stendur að þáttunum sé í skýjunum yfir viðtökunum og tilnefningunni. „Þetta er skemmtileg hátíð og gaman að vera í hópi með þessum frábæru seríum sem eru þarna. Það er heiður að vera í þessum flokki,“ segir hann í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. Þættirnir skarta Ladda í aðalhlutverki og fjalla um dauðvona mann sem er að skipuleggja jarðarförina sína. Hann mætir litlum skilningi sinna nánustu og málin flækjast þegar ástin bankar upp á. Þættirnir, sem voru sýndir í Sjónvarpi Símans, vöktu mikla lukku og nú stendur til að sýna þá um allan heim.

Hugmyndin kom upprunalega á borð Glassriver frá Jóni Gunnari Geirdal sem hafði í tíu ár langað að hrinda henni í framkvæmd. Framleiðendurnir voru efins um viðtökur við slíkri sögu, enda efnið óvenjulegt, en slógu samt til. „Við vissum að það væri þung vegferð að fara í að fjalla um dauðann á kómískan hátt,“ segir hann. „Við vorum ekki viss um hvernig þetta myndi fara í landann en viðbrögðin eru vonum framar.“ Þættirnir heilluðu ekki bara Íslendinga heldur eiga þeir greinilega erindi víðar um heim. Og núna er framhald á teikniborðinu hjá framleiðendunum. „Það verða áherslubreytingar en sömu karakterar,“ lofar Hörður í lokinn.

Rætt var við Hörð Rúnarsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Hlutverkið sem þjóðin á inni hjá Ladda“