
Barnadauði gæti aukist vegna COVID-19
Samkvæmt úttekt UNICEF, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Alþjóðabankans létust 5,2 milljónir barna yngri en fimm ára í fyrra af völdum sjúkdóma sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Árið 1990 voru dauðsföllin tólf og hálf milljón. UNICEF kannaði stöðuna í 77 ríkjum og komst að því að í rúmlega 50 þeirra hafi heimsfaraldurinn raskað heilbrigðiseftirlit og bólusetningu meðal barna.
AFP fréttastofan hefur eftir Henrietta Fore, formanni UNICEF, að þetta eigi sérstaklega við meðal lág- og meðaltekjuríkja. Þar sé COVID-19 að stífla heilbrigðiskerfið. Hún segir að án tafarlausra fjárfestinga til þess að endurreisa heilbrigðiskerfi- og þjónustu eigi milljónir barna undir fimm ára aldri, þá sérstaklega hvítvoðungar, á hættu að deyja. Samkvæmt útreikningum Johns Hopkins háskólans eru líkur á að nærri sex þúsund fleiri börn deyi á hverjum degi vegna áhrifa COVID-19 á heilbrigðiskerfið.
Í úttekt UNICEF kom í ljós að dánartíðni barna yngri en fimm ára er yfir 50 af hverjum þúsund lifandi fæddum í sjö ríkjum heims. Í Afganistan, þar sem eitt af hverjum sautján börnum deyr áður en það nær fimm ára aldri, hefur heimsóknum á heilbrigðisstofnanir fækkað verulega frá því faraldurinn hófst.