Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Allir átta sig á mikilvægi Icelandair fyrir hagkerfið

09.09.2020 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Tugmilljarða hlutafjárútboð Icelandair Group fer fram í næstu viku eftir að hluthafar samþykktu hlutafjáraukningu einróma í dag. Forstjóri félagsins segir alla átta sig á tækifærum Icelandair og mikilvægi þessi fyrir íslenskt hagkerfi. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Úlfar Steindórsson stjórnarformaður og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group.

Vorum bjartsýn á samþykkið

Hlutafé í Icelandair Group eykst um allt að 23 milljarða króna í næstu viku takist að selja nýja hluti í félaginu. Bogi Nils Bogason forstjóri segir gott hljóð hafa verið í þeim fjárfestum sem félagið hefur fundað með undanfarið. 
Hann segist ekki hafa átt von á öðru en að hlutafjáraukningin yrði samþykkt í dag:

„Við vorum bjartsýn að að hluthafar myndu tillögu stjórnar og það var niðurstaðan.“ 

Hlutafjárútboðið hefst á miðvikudagsmorgunin næsta og lýkur síðdegis daginn eftir. Föstudaginn 18. er stefnt að því að kynna niðurstöðuna. Landsbankinn sér um útboðið.

Fundað með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum

Stjórnendur Icelandair hafa að undanförnu kynnt útboðið fyrir fjárfestum og ætla að halda því áfram. Af tíu stærstu hluthöfum félagsins eru sex lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafin með tæp tólf prósent og Gildi og Birta eiga rúm sjö prósent. Bogi Nils vonast til að sjóðirnir taki þátt í útboðinu: 

„Við höfum verið að hitta þá meðal annars af því að þeir eru náttúrulega mikilvægur aðili í fjárfestaumhverfinu á Íslandi. Og þess vegna höfum við verið að hitta stærstu lífeyrissjóðina í rauninni í gegnum þetta ferli í rauninni frá því í vor.“

Og er gott hljóð í þeim?

„Ég meina í heild sinni hefur bara verið gott hljóð í gegnum þetta verkefni. Og það átta sig allir á tækifærum þessa félags og mikilvægi félagsins fyrir hagkerfið. Icelandair er bara mikilvægur þáttur í innviðum landsins. Og við þurfum á því að halda að svona kraftmikið félag verði tilbúið í viðspyrnuna þegar við stökkvum af stað.“

Alltaf áhætta í hlutafjárkaupum

Og áhættan er þó einhver?

„Það er alltaf að kaupa hlutabréf og ekki síst á tímum eins og núna, það er óvissa í heiminum. En við höfum svona verið að reyna að stilla þetta af þannig til þess að lágmarka áhættuna en engu að síður er alltaf áhætta í hlutabréfakaupum.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Einn metri á milli fundarmanna í dag.