Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

300 megawött til að ná Paríasarsamkomulaginu

09.09.2020 - 17:00
Mynd: RÚV / RÚV
Til að loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð er áætlað að tveir af hverjum þremur fólksbílum verði rafknúnir árið 2030. Til þess þarf um 300 megawött. Sérfræðingur segir ljóst að bæta verði við einhverju afli og styrkja flutningskerfið. Meðaleyðsla rafbíla er um 20 kílöwött á hverja ekna 100 kílómetra.

Á ársfundi Samorku voru kynntar rannsóknir sem sýna að til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins 2030 þurfi 300 MW vegna orkuskipta. Búrfellsvirkjun er 270. Áætlað er að árið 2030 verði tveir af hverjum þremur bílum á götunni knúnir áfram með rafmagni. Það svarar til 145 þúsund rafbíla. Sparnaður heimila geti verið 400 þúsund krónur á ári með því að aka á rafbíl. Sparnaður ríkisins geti verið á ári á bilinu 20-30 milljarðar króna með því að draga úr eldsneytiskaupum. Miðað við árið 2018 verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 37% eða um 365.000 tonn. Og það er áætlað að þurfi að verja 15 milljörðum króna í uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfi raforku. En það þarf orku til að orkuskipti geti orðið að veruleika. Það þarf t.d. 600 MW ef allur fólksbílaflotinn verður rafvæddur og ef full orkuskipti verða sem ná til allra bíla, skipa og innanlandsflugs þyrfti um 1200 MW. Þessar tölur segja ekki alla söguna því það skiptir máli hvenær og hvar bílar eru hlaðnir. 

Könnuðu hleðsluvenjur

Samorka lét gera sérstaka hleðslurannsókn í samvinnu við kanadískt fyrirtæki. Fylgst var með tilteknum fjölda bíla, t.d hvenær dags þeir voru í hleðslu, hvaða hleðslustöðvar voru notaðar og hve eyðslan var mikil. Niðurstaðan er að meðaleyðsla hreinna rafbíla er 19,9 kw á hverja ekna 100 kílómetra. Að sjálfsögðu breytilegt yfir árið. Rafbílar eyða meiru yfir vetrartímann. Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóri kerfisstýringar hjá RARIK, vann að hleðslurannsókninni. Hann segir að það hafi komið þægilega á óvart hve hleðslumynstrið er í raun hagstætt fyrir raforkukerfið.

„Það er heimahleðslan, sérstaklega seinni parts dags og um kvöldið sem er ríkjandi sem þýðir það að samspilið við grunnálagið í landinu er betra en það hefði getað verið. Við sjáum líka að það eru miklir möguleikar á að nýta álagsstýringu til þess nýta betur þennan dauða tíma í sólarhringnum því bíllinn stendur heima hjá sér ekki bara á kvöldin heldur allan nóttina. Þar er tækifæri sem gæti skipt miklu máli til lengri tíma,“ segir Kjartan.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Kjartan Rolf Árnason

Hlaða heima hjá sér

Rafbílaeigendur hlaða fyrst og fremst heima hjá sér. Aðeins um 4% raforkunnar er frá hraðhleðslustöðum. Dæmigert mynstur er að eigendur hlaða um það bil einu sinni á mánuði í hraðhleðslustöðu og bílar eru líka í hleðslu við vinnustaði þar sem það er í boði. Það var líka fylgst með tengiltvinnbílum og í ljós kom að 46% af akstri þeirra er á rafmagni. Flestar ferðir þeirra eru stuttar. En til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins er áætlað að 2030 verði tveir af hverjum þremur bílum knúnir áfram með rafmagni. Þetta eru um 60% fólksbíla og reyndar líka gert ráð fyrir að stærri bílar verði rafvæddir. En hvernig er raforkukerfið í stakk búið til að sinna þessari eftirspurn?

„Alla vega í byrjun erum við ágætlega sett. Þegar við erum komin upp í þetta hlutfall fer að reyna á kerfið. Vandinn er mismikill eftir því hvar við erum að horfa á kerfið. Það er viðbúið að því nær sem við komum neytandanum því erfiðara verði viðfangsefnið. Fyrsta nálgun í þessu gefur til kynna að um 14% af lágspennukerfinu þurfi uppfærslu. En þetta á eftir að kanna betur,“ segir Kjartan. Hann bendir á að verið sé að tala um að heildarálag geti verið 300 megawött.  „Ef við berum það saman við hversu stórt íslenska raforkukerfið er þá er þetta kannski ekki svo rosalega mikið miðað við uppsett afl í kerfinu. En það þarf samt sem áður að bæta einhverju við. Það þarf að styrkja flutningsnetið bæði um allt landið og til höfuðborgarsvæðisins þar sem flestir bílarnir eru. Dreifiveiturnar þurfa að búa sig undir komandi framtíð. Það eru flöskuhálsar sem þarf að taka á.“ 

Kjartan segir að það gæti þurft að styrkja raforkukerfið á ýmsum stöðum t.d. ef mikill fjöldi rafbíla þarf rafmagn á einum stað. Leggja þurfi nýja strengi frá dreifistöðvunum og einhverjar þeirra þarf hugsanlega að stækka. Þetta gætu verið töluverðar fjárfestingar. Enda er gert ráð fyrir að fram til ársins 2030 verði árlega varið 15 milljörðum króna til að styrkja og efla dreifi- og flutningskerfi raforku.