Upplifði kvíða og niðurlægingu í pólska sendiráðinu

08.09.2020 - 19:41
Erlent · Innlent · Pólland
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Margrét Adamsdóttir, fyrrverandi starfsmaður pólska sendiráðsins hér á landi, hefur kvartað til Utanríkisráðuneytis Póllands undan einelti sendiherrans. Hún segir það hafa byrjað þegar hún birti myndir af sér í gleðigöngunni í Reykjavík fyrir rúmu ári. Pólska utanríkisráðuneytið rannsakar nú málið og sendiráðið vill ekki tjá sig um það fyrr en rannsókninni lýkur.

Margrét Adamsdóttir var ritari Gerard Pokruszyński sendiherra Póllands frá fyrsta mars 2019 þar til um mánaðamótin. Hún sagði starfi sínu lausu fyrr í sumar, sem var ekki auðveld ákvörðun. „Ég hugsaði hana lengi og það var erfitt að taka hana, út af því að starfið í sjálfu sér var mjög gott. “ 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Þessa mynd birti Margrét á samfélagsmiðlum á Hinsegin dögum í fyrra.

Margrét segir að sendiherrann hafi lagt sig, og fleiri starfsmenn, í einelti. Í hennar tilviki hafi það byrjað eftir að hún birti mynd af sér á gleðigöngunni síðasta sumar. „Hann sagði að ég sem starfsmaður sendiráðs þurfi að taka tillit til þess að ekki skaða ímynd hans og sendiráðsins.“ 

Margrét kveðst þá hafa sagt honum að hún liti ekki á það sem pólitískan gjörning að taka þátt í gleðigöngunni. Sendiherrann hafi þá svarað því til að málið væri mjög pólitískt og beðið hana um að birta ekki samskonar myndir aftur né tjá neinar skoðanir sínar um það.  

„Mér leið mjög illa“

Þarna, segir Margrét, breyttist hegðun og viðmót sendiherrans. Þá segir hún að sendiherrann hafi, fyrir mistök, sent póst á alla starfsmenn þar sem hann kvartaði undan Margréti og lýsti áhuga á að fá annan í starf hennar. „Og þegar ég sá það, var ég mjög niðurlægð. Mér leið mjög illa, ég var oft grátandi og með kvíðaköst. Ég gat ekki séð fram á að vinna í svona andrúmslofti lengur,“ segir Margrét. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Gerard Pokruszyński er sendiherra Póllands á Íslandi.

Síðustu daga og vikur hafa málefni pólska sendiráðsins fengið mikla athygli í pólskum fjölmiðlum, kveikjan að því var viðtal við Margréti sem Stundin birti í sumar. Margrét segist ekki hafa heyrt frá sendiherranum síðan hún hætti störfum. Hún hafi hins vegar heyrt af því að hann hafi haft samband við fjölskyldumeðlimi. Hún kveðst ekki vita hvað honum gangi til með því en finnst það óþægilegt. „Það er ótrúlega erfitt fyrir mig og ótrúlega ósanngjarnt vegna þess að mín fjölskylda hefur ekkert að gera með þetta mál né mína vinnu hjá sendiráðinu,“ segir hún. 

Margrét hefur tilkynnt sendiherrann til pólska utanríkisráðuneytisins sem rannsakar nú málið. Fréttastofa falaðist eftir viðbrögðum frá pólska sendiráðinu, en það ætlar ekki að tjá sig neitt um málið fyrr en þeirri rannsókn er lokið. Málið hefur komið til umræðu á pólska þinginu. Krzysztof Smiszek, þingmaður vinstriflokksins Lewica, beindi formlegri fyrirspurn um það til utanríkisráðherrans Zbigniew Rau í gær, og hefur ráðherrann þrjár vikur til að svara. 

Erfið ákvörðun að tjá sig opinberlega

Margrét segist hafa hugsað það vel og lengi hvort hún ætti að tjá sig opinberlega um málið. „Það var ótrúlega erfið ákvörðun fyrir mig að tala um þetta. Mig langaði ekkert að tala um þetta. En þegar ég sá að enginn annar af mínum samstarfsmönnum vill, eða getur ekki - kannski út af því að þau eru enn í starfi þar eða hafa einhverjar aðrar ástæður - að þau ætli ekki að tala um þetta þá ákvað ég kannski hef ég minnstu að tapa. En kannski kemur í ljós að ég á eftir að tapa mjög miklu,“ segir Margrét. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi