Atvinnuleysi í Reykjanesbæ mælist nú hátt í tuttugu prósent. Félagsmálaráðherra fundaði með sveitarstjórnarmönnum, fulltrúum frá stéttarfélögum og Vinnumálastofnun í gær.
Bætur fari í launagreiðslur
Þar var rætt að atvinnuleysisbætur mætti nýta sem hluta af launakostnaði. „Og búið til störf eða fjölgað starfsfólki með því að borga mismuninn upp í samningsbundin laun. Þannig við getum þá haldið fólki í virkni. Það er það versta sem gerist fyrir utan tekjutapið að fólk verður dofið mjög fljótt,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Búast við að staðan versni næstu mánaðamót
Þá telur Kjartan mikilvægt að fara í mannfrekar framkvæmdir til dæmis í kringum flugstöðina. Þau eiga fund með ráðherranefnd um ríkisfjármál á fimmtudag. „Samfélagið finnur vel fyrir þessu. Það er deyfð í mannskapnum og kannski pínulítil sorg líka.“
Hvernig er staðan núna, sérstaklega eftir síðustu mánaðamót? „Hún er þung og við eigum eftir að búast við því að hún verði enn þyngri. Það eru að detta inn fleiri sem eru á uppsagnarfresti núna næstu mánuði,“ segir Hildur Jakobína Gísladóttir forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun á Suðurnesjum.
Umsóknum um bætur fer fjölgandi
Hildur segir erfitt að segja til um hvað bætast margir við þá; búist er við þrjú þúsund atvinnuleysisumsóknum á landinu öllu á næstu tveimur mánuðum. „Þær eru að stórum hluta hjá okkur, það hafa komið núna 158 umsóknir núna inn á einni viku og því miður óttumst við að þær fari fjölgandi,“ segir Hildur.
Isavia sagði upp yfir 130 manns síðustu mánaðamót og hefur því stöðugildum hja félaginu fækkað um 40% síðan faraldurinn hófst. „Við teljum okkur vera búin að skera niður eins og við mögulega getum,“ segir Sveinbjörn Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia.
Eitt til þrjú flug á dag næstu mánuði
Sveinbjörn segir að lausafjárstaða fyrirtækisins sé góð og nýtist allavega út fyrsta ársfjórðung á næsta ári. „Við sjáum fyrir okkur að næstu mánuðir geti auðveldlega verið mjög rólegir. Þær forsendur sem við erum að vinna eftir núna er að við getum jafnvel séð eitt til þrjú flug á dag kannski eitthvað inn í fyrsta ársfjórðung og jafnvel út fyrsta ársfjórðung. Við þekkjum það náttúrlega að hlutirnir breytast hratt með þessar ytri aðstæður svona óvissar,“ segir Sveinbjörn jafnframt.