Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skólafólk gagnrýnir tillögur Lilju

Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Tillaga Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um að breyta viðmiðunarstundaskrá grunnskóla þannig að fjölga eigi kennslustundum í íslensku og náttúrufræði á kostnað valgreina fellur í grýttan jarðveg á samráðsgátt stjórnvalda þar sem hún er til umsagnar. 20 umsagnir hafa nú borist um tillöguna, flestar frá skólafólki eða samtökum.

 

Í greinargerð í samráðsgáttinni segir að tilefni þessara breytinga sé mótun menntastefnu til 2030 og slakur árangur íslenskra grunnskólanemenda í PISA-könnuninni. Breytingarnar eiga að taka gildi frá og með næsta skólaári.

Í flestum umsagnanna segir að ólíklegt sé að frammistaða í PISA-könnuninni batni við fjölgun kennslustunda í íslensku og náttúrufræði. Varhugavert sé að minnka það val sem nemendur í efstu bekkjum grunnskóla hafa í námi.

Þá eru gerðar athugasemdir við takmarkaða þekkingu margra kennara á náttúrufræðigreinum og að nær væri að efla menntun þeirra í stað þess að fjölga náttúrufræðitímum nemenda.  Í einni umsögninni er spurt hvers vegna niðurstöður PISA-könnunarinnar eigi að stýra námi og kennslu.  Í annarri segir að betra nám náist ekki með meiri miðstýringu - auka þurfi fjölbreytileika í námi.

Umboðsmaður barna er meðal þeirra sem hafa sent inn umsögn. Þar segir að engin rök séu fyrir því að fjölgun kennslustunda komi til með að bæta árangur nemenda á kostnað fjölbreytni. Samtökin Þroskahjálp vara við því í umsögn sinni að skerða valfrelsi nemenda í námi og Samtök um tvítyngi benda á að aukinn tímafjöldi skili litlum árangri, breyta þurfi kennsluháttum.

Þá er í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga varað er við því að fækka kennslustundum í valgreinum og þar er minnt á samkomulag við Samtök iðnaðarins síðan í febrúar um að auka vægi listgreina í grunnskólum.