Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sambýliskona fyrrverandi ráðherra fyrir dóm í Noregi

08.09.2020 - 17:00
Mynd: Norska lögreglan / Norska lögreglan
Uppákoman kostaði dómsmálaráðherra Noregs embættið. Sambýliskona hans kemur núna fyrir dóm í Osló sökuð um að hafa sett á svið aðför að ráðherranum og staðið að baki alvarlegum hótunum í hans garð - og þó búa þau enn saman. Hún neitar og ráðherrann fyrrverandi styður konu sína. Næstu tíu vikur á að reifa þetta sérkennilega mál í dómhúsinu í Osló.

Hótunarbréf og kveikt í ruslatunnu

Heimili dómsmálaráðherra virtist umsetið af einhverju illþýði sem bæði vildi valda honum og fjölskyldu hans miska. Reynt var í tvígang að kveikja í fjölskyldubílnum. Krotað var á húsveggina með rauðri málningu, bæði hakakross og einnig orðið „rasisit“ eða rasist með augljósri ritvillu. Voru þetta útlendingar ekki skrifandi á norsku? Kveikt var í ruslatunnu og hótunarbréf bárust bæði honum og öðrum ráðherrum.

Dómsmálaráðherra fer með mál lögreglu í ríkisstjórninni og lögreglan hóf víðtæka rannsókn, kom upp eftirlitsmyndavélum og hafði fólk á vakt. Einfalt mál væri að grípa þann eða þá sem stóðu að baki ef þetta endurtæki sig. Það fundust þó aldrei nein merki um utanaðkomandi árásarfólk, sem hygðist jafna um dómsmálaráðherrann. Aðförin að húsi ráðherra hélt samt áfram. Leynilöggan var kölluð til og menn klóruðu sér í höfðinu. Á þessu gekk í þrjá mánuði, fram á vor árið 2019.

Það þótti og merkilegt að einhverjir beindu spjótum sínum beint að Tor Mikkel Wara dómsmálaráðherra vegna þess að hann var ekki umdeildur maður – þvert á móti. Hann var og er flokksmaður Framfaraflokksins en hafði ekki tekið beinan þátt í stjórnmálum lengi þegar hann var skipaður dómsmálaráðherra – og enginn deildi á skipun hans. Ekki einu sinni stjórnarandstaðan.

epa07468977 A picture made available on 28 March 2019 shows police outside the house of Norwegian Justice Minister Wara in Oslo, Norway, 14 March 2019. Norwegian Minister of Justice Tor Mikkel Wara on 28 March 2019 leaves his position as Justice Minister. His cohabitant Laila Anita Bertheussen is suspected of several incidents at their house, as putting their own car on fire.  EPA-EFE/Heiko Junge NORWAY OUT NORWAY OUT
 Mynd: EPA
Lögrelan fyrir utan heimili ráðherrans

Athyglin beinist að leiksýningu

Fleira kom þó til en aðeins orðspor ráðherra. Gat verið að þessi aðför væri sprottin af umfjöllun um kynþáttafordóma hjá litlum leikhópi í Osló? Þar var sett upp sérkennileg sýning þar sem myndir af húsum nokkurra stjórnmálamanna voru notaðar sem leiktjöld. Þar á meðal var hús dómsmálaráðherra en líka hús Jens Stoltenberg, sem orðinn var framkvæmdastjóri Nato, og fleiri áhrifamanna. 
Þó sáust hvorki húsnúmer né fólk á myndunum og ekki auðvelt að átta sig á hvar þessi hús væru nema menn þekktu náið til. Leiksýningin var sömuleiðis fásótt og vakti ekki umtal nema að einhverjum leikdómendum þótti þetta heldur lítilfjörlegur listviðburður.

En nú upphófst darraðardans. Laila Anita Bertheussen, sambýliskona dómsmálaráðherra, taldi leikritið aðför að friðhelgi einkalífsins. Hún mótmælti sýningunni í blöðum og þegar skemmdarverk hófust við hús ráðherra kærði hún leiksýninguna til lögreglu. 
Einhver annaðhvort tengdur sýningunni eða undir áhrifum frá boðskap hennar hlaut að standa að baki. Meira að segja Erna Solberg forsætisráðherra tók undir þetta sjónarmið. Þarna rákust á tjáningarfrelsi listamanna og friðhelgi einkalífsins.

Dómsmálaráðherrann sagði af sér

Lögreglan komst þó ekki til botns í málinu. Fann engin merki um óboðna gesti við húsið. Síst dró þó úr aðförinni við það. Hótunarbréf bárust að því er virtist frá leikhópnum og enn bættist við skemmdarverk við húsið, og þá fór að vakna grunur. Upphaf alls þessa virtist vera inni í húsinu. Eitt kvöld var skyndilega slökkt á eftirlitsmyndavél sem beinist að fjölskyldubílnum; skynjari í útidyrum sýndi að dyrnar voru opnaðar – svo var hurðin lögð að stöfum og kveikt á ný á myndavélinni. Í millitíðinni kom upp eldur í bílnum. 

Frúin var ein heima og enginn á ferli nærri húsinu: Það hlaut því að vera hún sem kveikti í. Lögreglan fór yfir öll gögn sín næstu fjóra daga og svo var forsætisráðherra tilkynnt að sambýliskona dómsmálaráðherra kæmi ein til greina sem sakborningur. Dómsmálaráðherrann sagði af sér samdægurs. 
En eftir stendur að konan var aldrei beinlínis staðin að verki. Mál lögreglu er byggt á útilokunaraðferðinni og á líkum. Kenning lögreglu er að sambýliskonan hafi viljað magna umræður um leikritið, þar sem hús fjölskyldunnar sást. Og þegar það tókst ekki varð hún sjálf að setja á svið skemmdarverk og skrifa hótunarbréf til að sýna fram á að leikritið væri upphaf þessara árása.

epa07468980 Norwegian Minister of Justice Tor Mikkel Wara (L) gives a press conference with Prime Minister Erna Solberg in Oslo, Norway, 28 March 2019. Norwegian Minister of Justice Tor Mikkel Wara on 28 March 2019 leaves his position as Justice Minister. His cohabitant Laila Anita Bertheussen is suspected of several incidents at their house, as putting their own car on fire.  EPA-EFE/Gorm Kallestad NORWAY OUT NORWAY OUT
 Mynd: EPA
Tor Mikkel Wara dómsmálaráðherra segir af sér

Langt dómshald

Dugar þetta fyrir dómi? Sambýliskonan er ákærð fyrir aðför að réttum stjórnvöldum og lýðræðinu og fyrir að setja á svið refsiverð atvik. Þetta getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Reifa á málið í 10 vikur hér í dómhúsinu í Osló og ákæruvaldið hefur boðað vitnisburð um 30 sérfræðinga. Dómarinn vill fá beinar sannanir en ekki kenningar og líkur. Það á eftir að koma í ljós hvort lögreglan hefur meira til að sanna sitt mál en komið hefur fram til þessa.

Takist lögreglu ekki að sanna sök á sambýliskonuna standa öll spjót á lögreglunni og ákæruvaldinu. Líka leynilögreglunni, sem var komin á kaf í rannsóknina. Dómsmálaráðherrann sagði af sér - var afsögn hans á litlum heimildum byggð? Og eru þá enn ófundnir einhverjir sem stóðu að aðför að ráðherranum – ef ekki tekst að sanna sök á sambýliskonuna? 
Því er spáð að þessu máli ljúki fyrst þegar það hefur farið í gegnum öll dómstig og dómarar hæstaréttar sagt síðasta orðið.
 
 

 

Gísli Kristjánsson