Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óútskýrð veikindi valda frestun á tilraunum á bóluefni

FILE - This July 18, 2020, file photo, shows the AstraZeneca offices in Cambridge, England. AstraZeneca announced Monday, Aug. 31, its vaccine candidate has entered the final testing stage in the U.S. The company said the study will involve up to 30,000 adults from various racial, ethnic and geographic groups. (AP Photo/Alastair Grant, File)
 Mynd: AP
Lyfjaframleiðandinn AstraZeneca ákvað í dag að fresta frekari tilraunum með bóluefni gegn COVID-19. Í yfirlýsingu frá lyfjafyrirtækinu segir að tilraunum hafi verið frestað vegna óútskýrðra veikinda eins sjálfboðaliðanna. Óháð nefnd vísindamanna fer yfir öll gögn rannsóknarinnar.

Fram kom í fréttum í lok ágúst að framkvæmdastjórn ESB hefði gert samning við  AstraZeneca um kaup á bóluefni og að sænsk stjórnvöld myndu hafa milligöngu um sölu á bóluefni til Íslands og Noregs. Gert væri ráð fyrir að Ísland þyrfti um 550 þúsund skammta, miðað við að um 75 prósent þjóðarinnar yrðu bólusett til að ná fullnægjandi hjarðónæmi og hver einstaklingur bólusettur tvisvar. 

Í yfirlýsingunni segir að þetta séu eðlileg viðbrögð og gerist reglulega þegar verið er að þróa ný bóluefni. Unnið sé að því að flýta rannsókn á þessu einstaka tilfelli til þess að hægja sem minnst á prófunum. Ekki var greint frá því hvers eðlis veikindin voru eða hversu alvarleg.

Bóluefni AstraZeneca er unnið í samstarfi við Oxford háskóla og er ekki komið með markaðsleyfi í Evrópu. Bóluefnið var á lokastigum prófana og voru vonir bundnar við að hægt yrði að taka það í notkun í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Átta önnur fyrirtæki vinna að þróun bóluefnis, en tilraunir AstraZeneca eru komnar hvað lengst.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV