Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Orkuskipti í samgöngum eitt stærsta framtíðarverkefnið

08.09.2020 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Orkuskipti í samgöngum geta sparað hverju heimili um 400 þúsund krónur á ári þegar markmið aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hafa náðst. Loftslagsváin er einn helsti umhverfisvandi sem mannkynið stendur frammi fyrir og þjóðir heims verða að ráðast í fjölþættar aðgerðir til að bregðast við vandanum.

Samgöngur eru stærsti þáttur losunar gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi vegna þess að bílar, flugvélar og skip nota innflutt jarðefnaeldsneyti.

Að minnka útblástur frá samgöngum og skipta bílaflotanum yfir í hreinorkubíla, sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum, er því eitt helsta verkefni Íslands á næstu áratugum svo mæta megi alþjóðlegum skuldbindingum Parísarsáttmálans.

Ísland hefur getu og burði til þess að skipta yfir í endurnýjanlega orku á næstu áratugum, fyrir fullt og allt.

Þetta kom fram á ársfundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, sem fram fór í morgun undir yfirskriftinni Orkuskipti: Hvað þarf til? Samtökin fagna 25 ára afmæli í ár.

Mikill ávinningur af orkuskiptum

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir að orkuskipti í samgöngum sé lykilþáttur í aðgerðaáætlun vegna loftslagsmála. Ávinningur af orkuskiptum sé mikill og til mikils að vinna fyrir samfélagið í heild.

Verkefnið sé vissulega umfangsmikið, en spennandi engu að síður. Hann segir stefnt að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 37% á tímabilinu 2018-2030.

„Greiningar okkar sýna að um leið og við náum markmiðum okkar þýðir það ekki bara minni mengun heldur líka umtalsverðan sparnað fyrir heimilin,“ segir Páll.

Þriðju orkuskiptin

Þetta verða þriðju orkuskipti Íslands, en áður hefur landið skipt úr kolum, gasi og olíu til húshitunar yfir í rafmagn með því að nýta vatnsafl og síðar yfir í jarðhitaveitu sem yfir 90% landsmanna hafa nú aðgang að. 

Niðurstöður greiningar Samorku leiða í ljós að tveir af hverjum þremur bílum þurfa árið 2030 að vera hreinorkubílar. Auka þarf framleiðslu á rafmagni um 300 megawattsstundir ef ná á markmiðum um orkuskipti í vegasamgöngum.

Páll segir að grunninnviðir í rafmagni séu góðir þó svo styrkja þurfi dreifikerfi um land allt. „Það er mjög mikilvægt að fyrir 2030 geti hver einasti rafbílaeigandi treyst á flutnings- og rafdrifin kerfi alls staðar að fullu.“

Ísland í fremstu röð

Fram kemur að nýskráningar rafmagns og tengiltvinnbíla sem hlutfall seldra fólksbíla hafi aukist verulega á síðustu árum. Ísland sé í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu. Aðeins Noregur standi okkur framar, en þar voru rafbílar meirihluti nýrra bíla árið 2019.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir að einnig verði dregið úr útblæstri í haftengdri starfsemi um 42% fyrir árið 2030. Stór skref hafi þegar verið stigin í rafvæðingu hafna en næsta verkefni verði að greina orkuþörf og möguleika til rafvæðingar í sjávarútvegi. Orkuskipti í flugi séu styttra á veg komin á heimsvísu, en þó farin af stað. Gert sé ráð fyrir 50% minni útblástur í flugsamgöngum árið 2050.

Hundruð þúsunda sparist árlega

Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, segir í samtali við fréttastofu að Íslendingar séu í góðri stöðu þegar kemur að orkuskiptum í samskiptum. Tækifæri til orkuskipta hérlendis séu gríðarleg og á mörgum sviðum samfélagsins.

Hún segir áhrif orkuskipta ekki aðeins mikilvæg umhverfinu, heldur geti efnahagslegu áhrifin verið veruleg. „Efnahagslegu tækifærin eru margvísleg og þegar upp er staðið mun meðalheimilið geta sparað allt að 400 þúsund árlega með rafbílavæðingu. Rafbílar eru auk þess öruggari og skemmtilegri að keyra.“

Innlent eldsneyti

 „Við sjáum fram á mikinn efnahagslegan bata með því að framleiða og vinna eldsneyti hér heima í staðinn fyrir að flytja inn mengandi, dýrt, verðsveiflukennt eldsneyti að utan,“ segir Auður.

20-30 milljarðar muni sparast árlega vegna eldsneytiskaupa. Rafbílavæðingin sé því þjóðhagslega hagkvæm og ekki síður hagkvæm fyrir heimilin. Ekki megi gleyma því að aukið orkuöryggi sé stórt efnahagsmál.

„Ef íslensk fyrirtæki og heimili geta átt tryggan aðgang að allri sinni orku á stöðugu og samkeppnishæfu verði til lengri tíma, óháð stjórnmálaástandi víða um heim þá er það öflugur drifkraftur fyrir hagkerfið,“ segir Auður Nanna.