Kynnir nýja aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti nýja aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Með 18 aðgerðum er stefnt að því að draga úr notkun plasts, til dæmis með því að hvetja til notkunar á fjölnota vörum í stað plastvara, auka flokkun á plasti og sporna gegn plastmengun í hafi. Sumar aðgerðanna hafa nú þegar verið kostnaðarmetnar og í sumum tilvikum hefur verið gert ráð fyrir kostnaði í útgjaldaramma málefnasviðsins.

Aðgerðirnar byggja á tillögum samráðsvettvangs sem Guðmundur Ingi skipaði árið 2018. Þar áttu sæti fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og þingflokka. 

Vilja draga úr notkun plasts 

Fyrstu átta aðgerðirnar snúa að því að draga úr notkun plasts. Í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins er til dæmis stefnt að því að banna markaðssetningu tiltekinna einnota plastvara í byrjun júlí á næsta ári. Þá er hvatt til rannsókna og þróunar á plastlausum lausnum með styrkjum úr Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði innan Rannís.  

Sumar aðgerðanna hafa nú þegar komið til framkvæmda, til dæmis sú sem snýr að því að hætta notkun burðarpoka úr plasti. Þann 1. september 2019 tóku gildi lög sem Alþingi samþykkti í maí sama ár um að óheimilt væri að afhenda plastburðarpoka án endurgjalds. Frá 1. janúar 2021 verður einnig óheimilt að afhenda þá gegn endurgjaldi.  

Viðurkenningin Bláskelin sem var veitt í fyrsta sinn á opnunarhátíð árvekniátaksins Plastlaus september í fyrra er hluti af aðgerðunum og er ætlað að vekja athygli á nýsköpun varðandi plastlausar lausnir. 

Áttunda aðgerðin er helguð átaki í atvinnulífinu en með henni vilja stjórnvöld vekja athygli stjórnenda fyrirtækja á því hvernig má auka virði vöru og þjónustu með því að nýta plast með ábyrgum hætti. Í því skyni að hvetja atvinnulífið til að móta stefnu um að draga úr notkun plasts verða haldnar kynningar og vinnustofur fyrir stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja. 

Vilja auka endurvinnslu plasts 

Fjórar aðgerðir miða að því að auka endurvinnslu plasts. Á næsta ári stefna stjórnvöld að því að innleiða skyldu til samræmdrar flokkunar úrgangs til að auðvelda flokkun plasts. Með frumvarpi sem Guðmundur Ingi lagði fram í desember síðastliðnum um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs vildi hann skylda fólk til að flokka heimilisúrgang. Hann stefnir á að leggja endurskoðað frumvarp fyrir Alþingi í janúar næstkomandi.  

Á næsta ári er einnig stefnt að því að athuga möguleikann á því að leggja úrvinnslugjald á fleiri plastvörur en gert hefur verið hingað til, til þess að búa til hagrænan hvata til að safna sem mestum plastúrgangi til endurvinnslu.  

Með miðlægri upplýsingagjöf á svo að auðvelda atvinnulífinu að velja umhverfisvænni lausnir í rekstri. Það verður meðal annars gert með því að auka við upplýsingar á upplýsingavefnum Saman gegn sóun

Vilja sporna gegn plastsöfnun í hafi 

Samkvæmt áætluninni á að ráðast í rannsóknir á plastmengun í hafi við Ísland, annars vegar á ströndum og á yfirborði sjávar og hins vegar á hafsbotni. Þá á að bæta skolphreinsun til að draga úr losun örplasts í hafið.  Þá á að ráðast í 3-5 ára átak til að hreinsa strandlengju Íslands af plasti og öðrum úrgangi auk þess að tryggja að hreinsuðum ströndum verið haldið við eins og kostur er. Í samræmi við samevrópskar reglur er svo stefnt að því að takmarka markaðssetningu snyrtivara sem innihalda örplast.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi