Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kaltjón neyðir bændur til að kaupa hey

08.09.2020 - 20:37
Kuldatíð í vetur olli miklu tjóni á túnum bænda á Norður- og Austurlandi. Heyskapur hefur dregist töluvert á langinn og þá sjá bændur víða fram á að þurfa að kaupa hey.

„Þetta leit mjög illa út“

Óvenju mikið kal blasti við þegar snjóa leysti á norðausturhorni landsins og þurftu nokkrir bændur að plægja stóran hluta jarða sinna. Þannig var staðan hjá Sveinbirni Sigurðssyni bónda á Búvöllum í Aðaldal, en 80-90% af hans túnum voru kalin. Um tíma leit úr fyrir að Sveinbjörn þyrfti að kaupa hey en góð tíð undanfarnar vikur bjargaði því sem bjargað varð.

„Þetta leit mjög illa út. Þetta er svona búið að taka svolítið á spennugikkinn í manni að vita hvort maður fengi heyskap eða ekki. Margir fóru í það að slá, það er búið að slá gríðarmikið af sinutúnum og ætla að reyna að nýta það sem fóður. Ég og fleiri fórum þessa leið að endurrækta túnin og það var bara spurningin hvort að þau spryttu,“ segir Sveinbjörn.

Varstu einhvern tímann stressaður í sumar um að þetta færi allt á versta veg?

„Já já ég varð stressaður og farinn að fara um og kíkja eftir sinutúnum eins og margir aðrir.“

Þarf að kaupa 300 rúllur

Eftir gott tíðarfar sumarið 2018 seldu bændur víða um land hey til Noregs í tonnavís. Staðan eftir þetta sumarið er öllu verri en tilkynningum um kaltjón rignir inn til Bjargráðasjóðs. Þar verður lokað fyrir umsóknir þann 1. október en nú þegar hafa borist 165 tilkynningar um rúmlega 7400 hektara. Einn þeirra sem þurfa að sækja til sjóðsins er Geir Árdal, bóndi á Dæli í Fnjóskadal. 

„Þetta er tjón já. Við erum búnir að kaupa um 300 rúllur til þess að reyna að tryggja okkur og það er fjármagn í því. Náttúrlega miklu betra að heyja ef maður hefur tök á því sjálfur, maður á öll tæki og tól til þess, þannig að það telur,“ segir Geir.