Húsasmiðjan má ekki nota fingrafaraskanna

08.09.2020 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Húsasmiðjunni sé ekki heimilt að nota fingrafaraskanna fyrir skráningar starfsfólks í viðverukerfi. Fyrirkomulagið samræmist ekki lögum um persónuvernd. Húsasmiðjan fengið fyrirmæli um að hætta notkun fingrafaraskanna og eyða lífkennaupplýsingum starfsmanna fyrir 10. september.

Fram kemur í samantekt málsins að starfsfólki hafi verið tilkynnt um að fingrafaraskanni yrði tekinn upp í stimpilklukku. Nýja fyrirkomulagið væri til að tryggja betur hagsmuni starfsfólks, þótt ekki væri tilgreint hverjir þeir væru. Í svari Húsasmiðjunnar til Persónuverndar kemur fram að með notkun fingrafaraskanna væri unnið með upplýsingar um fingraför til þess að persónugreina einstaklinga. Persónuvernd segir að samkvæmt upplýsingum frá umboðsaðila fari auðkenning fram á grundvelli upplýsinga um fingraför, sem séu lífkennaupplýsingar og teljist viðkvæmar persónuupplýsingar. 

Persónuvernd áréttar að almennt séu settar mjög þröngar skorður við notkun lífkennaupplýsinga til að persónugreina einstakling. Yfirleitt vegi öryggissjónarmið þar þungt, svo sem vegna meðferðar matvæla eða hættulegra efna. 

Í niðurstöðu sinni segir Persónuvernd að fjölmörg önnur úrræði bjóðist fyrirtækjum til þess að hafa eftirlit með vinnuframlagi starfsmanna sem byggi ekki á vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Þá sé aðstöðumunur á milli vinnuveitanda og launþega sem hafi ekki annan kost til að skrá sig inn og út úr vinnu. Því sé ekki hægt að fullyrða að samþykki launþega sé veitt af fúsum og frjálsum vilja. 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi