Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hefði þurft að styrkja lögregluna enn frekar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra segir fjölgun stöðugilda í lögreglunni vegna lokunar fangelsisins ekki næga. Fjölgað er um einn mann á vakt en áður hefur komið fram að tvo þurfi til að sinna föngum.

Í tilefni af lokun fangelsisins á Akureyri kynnti dómsmálaráðherra aðgerðir til að efla almenna löggæslu á Akureyri og nágrenni. Styrking löggæslunnar samkvæmt þeim felst meðal annars í að bæta einum manni við útkallsvakt lögreglu allan sólarhringinn, sem nemur 4 stöðugildum. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir styrkinguna ekki næga. Í áliti Ríkislögreglustjóra hefði sagt að þyrfti að bæta lögreglunni þetta upp með að lágmarki fjórum mönnum en það séu ákveðin vonbrigði að það hafi ekki verið bætt við fleirum, segir hún. 

Færri í útkallsliði en áður

Fangaverðir sinntu einnig föngum sem gistu fangageymslur lögreglunnar vegna rannsóknar mála, ölvunar eða af ýmsum öðrum ástæðum. Áður hefur komið fram að til þess að sinna föngum þurfa tveir lögreglumenn að fara inn úr útkallsliði og sú hefur raunin verið síðan í vor þegar fangelsið lokaði. Þrátt fyrir viðbót nú verður því einum færra í útkallsliði lögreglunnar en áður, þegar sinna þarf föngum. Skammtímavistanir hjá embættinu eru um 300 á ári.  

Styrking sem kemur lokun fangelsis ekki við

Í tilkynningu frá ráðuneytinu um aðgerðirnar segir að þessi nýju stöðugildi séu til viðbótar við eflingu embættisins síðustu ára og að einnig verði fjölgað um einn í sérsveit lögreglunnar á Akureyri. Í pistli á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir Páley fjárframlög sem hafi komið til embættisins á síðustu árum vegna fjölgunar ferðamanna, hálendiseftirlits og landamæraeftirlits vel nýtt en komi lokun fangelsisins ekki við heldur annarri löggæsluþörf.

Varðandi fjölgun í sérsveit á Akureyri í tvo menn segir Páley þann mann þegar hafa hafið störf og sú ákvörðun hafi ekki verið tekin í tengslum við lokun fangelsisins. Þá segir hún mikils virði fyrir rannsóknir embættisins að tryggja eigi fullnægjandi gæsluvarðhaldsúrræði á Akureyri, en Fangelsismálastofnun mun manna það.