Hertar samkomutakmarkanir taka gildi í Danmörku á morgun. Nú mega aðeins fimmtíu koma saman í stað hundrað áður.
DR greinir frá þessu. Krám og veitingastöðum í Óðinsvéum og Kaupmannahöfn verður gert að loka á miðnætti í stað klukkan tvö.
Rasmus Ullehus vert í Óðinsvéum er þungbrýnn vegna breytinganna og segir jafnlíklegt að fólk sé drukkið á miðnætti og klukkan tvö. Hann segir starfsfólk ráða vel við að hafa hemil á viðskiptavinum sínum og óttast að smithætta aukist þegar drukkið fólk fari í heimahús til að halda gleðskapnum áfram.
Stjórnvöld hvetja veitingafólk til að skrá niður upplýsingar um gesti sína svo hægt verði að upplýsa þá komi upp smit á veitingastöðunum. Danskir veitingahúsaeigendur eru efins um hægt verði að fylgja þeirri hugmynd eftir.