11% fjölgun tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Fyrstu átta mánuði þessa árs fjölgaði tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur um 11% og áætlað er að kostnaður borgarinnar við málaflokkinn aukist um 14% á næsta ári. Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að hlutfall tilkynninga vegna erlendra barna sé talsvert hærra en fjöldi þeirra gefur til kynna.

Kórónuveirufaraldurinn er ein helsta ástæðan fyrir þessari fjölgun tilkynninga að sögn Hákonar Sigursteinssonar framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur. Hann segir að 20% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi gagnvart börnum hafa borist í ár en á sama tímabili í fyrra.

„Fjölskyldur eru meira einangraðar heima við, það gæti verið skýring líka þar. Það sem við sáum og voru frávik varðaði heimilisofbeldismál, mál þar sem foreldrar voru í fíknivanda og mál þar sem nágrannar voru að tilkynna meira. Og börnin sjálf voru líka að tilkynna meira,“ segir Hákon.

Þegar hefur verið bætt við sjö sérfræðingum og til stendur að ráða fleiri.  Það kostar Reykjavíkurborg um 120 milljónir, sem er 14% aukning á útgjöldum Barnaverndar. 

Um 90% færri tilkynningar frá skólum hafa borist Barnavernd Reykjavíkur í ár, en tilkynningum frá öðrum hefur fjölgað mikið. Ein af hverjum þremur tilkynningum í ár er vegna erlendra barna, en hlutfall þeirra af öllum börnum í borginni er um 20%. Hákon segir að hugsanlega sé fólk meðvitaðra um aðstæður barna af erlendum uppruna, en ein af ástæðunum fyrir þessum fjölda sé að í sumum menningarheimum tíðkist að refsa börnum. 

„Það er beitt meiri líkamlegum refsingum, börnin eru slegin og öguð þannig til. Þessi menningarmunur og það sem við gerum er að upplýsa og segja hvað sé viðmiðið á Íslandi,“ segir Hákon.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi