
Um 300 Róhingjar á flótta náðu landi á Súmötru
Róhingjar eru súnní og súfista-múslímar og ofsóttir í heimalandi sínu Mjanmar. Bát flóttafólksins var bjargað að landi nærri borginni Lhokseumawe á norðurströnd Súmötru.
AFP fréttastofan hefur eftir herforingja á svæðinu að um borð hafi verið 102 karlar, 181 kona og fjórtán börn. Einn úr hópnum hafi verið fluttur í skyndingu á sjúkrahús alvarlega veikur og öll hin þurfi að skima við kórónuveirunni. Í kjölfarið verði þeim fundið húsnæði.
Þetta er talinn vera fjölmennasti hópur flóttafólks til að koma að landi á Indónesíu síðan 2015. Í júní síðastliðnum bar yfir eitt hundrað Róhingja að landi á sömu slóðum en sá hópur hafði mátt þola skelfilega sjóferð um fjögurra mánaða skeið.
Yfir milljón Róhingja hefst við í flóttamannabúðum í Bangladess en reynir allt hvað má að leita skjóls í Malasíu eða á Indónesíu. Iðulega fellur flóttafólkið fyrir fagurgala svikahrappa sem græða vel á loforðum um að finna því griðastað í útlöndum.