Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þjóðernispopúlismi gæti náð árangri á Íslandi líka

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. - Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV

Þjóðernispopúlismi gæti náð árangri á Íslandi líka

07.09.2020 - 08:53

Höfundar

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur við Háskólann á Bifröst sendi í sumar frá sér bókina Neo-Nationalism: The Rise of Nativist Populism. Þar fjallar hann um nýþjóðernishyggju og uppgang popúlisma í vestrænum stjórnmálum, allt frá lokum seinna stríðs til okkar daga. Á síðustu árum segir hann þjóðernispopúlista hafa í síauknum mæli komist til áhrifa og þróunin þykir honum varhugaverð.

Sem dæmi um þjóðernispopúlista sem gegna mikilvægum valdastöðum þjóða nefnir Eiríkur Bergmann Pútín í Rússlandi, Erdoğan í Tyrklandi, Orbán í Ungverjalandi, Kjærsgaard í Danmörku og  Donald Trump Bandaríkjaforseta sem dæmi. 

Eiríkur var gestur Þrastar Helgasonar í þættinum Svona er þetta á Rás 1 þar sem hann sagði popúlisma og þjóðernishyggju verða æ sjálfsagðari hluta af stjórnmálalandslaginu. Hann greinir frá varhugaverðri þróun og endurkomu þjóðernishyggjunnar eftir að hún var kveðin í kútinn eftir stríð. „Við lok heimsstyrjaldar er þjóðernishyggjan útskúfuð algjörlega sem hugmyndafræði á Vesturlöndum. Í raun var hún þannig lagað bannfærð eftir þær hörmungar sem hún hafði leitt yfir veröldina og Vesturlönd og Vestur-Evrópa eru reist á frjálslyndum lýðræðisgildum,“ segir hann. „Menn litu svo á að þetta tímabil þjóðernishyggjunnar, og fasismans á milli stríða, væri lokið. Og þannig var það lengst af.“ En síðustu ár hafi þau sjónarmið aftur orðið viðtekin og njóti síaukinnar hylli. „Nú eru komnir til valda stjórnmálamenn sem færa fram svipuð sjónarmið og höfðu algjörlega verið útskúfuð áður. Auðvitað getur það verið viðsjárvert að stjórnmál þróist með þeim hætti.“

Samþykkja lýðræðið en hafna frjálslyndinu

Hann segir ákveðna þræði hinnar herskáu þjóðernishyggju millistríðsáranna hafa lifað af þessa útskúfun og fengið að vaxa og dafna jafnt og þétt á seinustu árum. „Það er ákveðin valdboðshyggja. Heildarhyggja um þjóðina, höfnun á margbreytileika og höfnun á fjölbreytni mannfélagsins,“ segir hann. En öfugt við fasista millistríðsáranna þá hafni þjóðernispopúlistarnir ekki lýðræðinu heldur stilli sjálfum sér fram sem handhafa almannaviljans. „Mússólíní hafnaði hins vegar lýðræðinu og það gerði Hitler líka. Fasisminn gekk út á að lýðræðið væri ekki heppilegt stjórnarform.“ Í grunninn megi segja að munurinn á þjóðernispopúlistum dagsins í dag og fasistunum sé að þeir samþykki lýðræðið en hafni frjálslyndinu, „það er að segja fjölbreytninni. Réttindum einstaklings til að vera á skjön við meirihlutaviljann. Að þú getir lifað þínu lífi í samfélaginu þó þú sért ekki hliðhollur ákvörðun meirihlutans hverju sinni.“ Málið sé þó töluvert flóknara, enda rúmist innan þjóðernispopúlismans ótal öfl sem séu innbyrðis mjög ólík.

Að gera andstæðinga sína að óvinum

Popúlisminn í sjálfum sér snýst hins vegar í sem einföldustu máli um að gera andstæðinga sína að óvinum, samkvæmt Eiríki. „Það er óvinavæðing stjórnmálanna, þessi stöðuga tilhneiging til að skipta samfélaginu í tvennt. Annars vegar þennan góða hóp sem þarf að vernda, og svo utanaðkomandi öfl sem beri að ráða niðurlögum á og gera að óvinum,“ segir hann. Þjóðernispopúlisminn ali á ótta í garð heimatilbúinnar ógnar og ásaki innlenda elítu um að hafa svikið þjóðina í hendur þeirrar utanaðkomandi ógnar. „Þannig er ógn máluð upp umfram það sem efni standa til.“

Afar fáir popúlistar gangist þó við því að vera slíkir enda sé sá stimpill í eðli sínu neikvæður. „Þess vegna þarf maður að vara sig á því hvernig honum er beitt,“ segir Eiríkur. En ekki dugi að jaðarsetja hann sem óboðlega vídd í stjórnmálunum eða sem sjúklegt ástand. „Ég held því fram að hann sé orðinn svo víðtækur að ekki sé hægt að afgreiða hann í burtu með slíkum aðferðum.“

Pólitík bullsins beitt til að víkja sér undan óþægindum

Á stafrænum tímum og sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla hefur opnast fyrir flóðgátt fréttaflutnings úr öllum og stundum vafasömum áttum. Segir Eiríkur að samsæriskenningar og falsfréttir streymi nú fram af krafti sem aldrei hafi sést áður. Forystumenn stórra ríkja séu nú jafnvel að dreifa þeim sjálfir til að slá ryki í augu kjósenda og auka fylgi sitt. „Út úr þessu kemur ægilegt fljót sem við verðum öll undir því það er erfitt fyrir okkur sem lífverur að greina allar þær upplýsingar sem að okkur steðja,“ segir hann. „Maður sér þetta ekki frá degi til dags en þegar maður hugsar til baka sér maður hvað breytingin er mikil. Það er straumur samsæriskenninga, falsfrétta og popúlisma og allar þessar ár renna saman svo úr verður fljót. Við erum enn að reyna að svamla um í því og áttum okkur ekki nákvæmlega á hver staðan er.“

Í Bandaríkjunum er við völd stjórnmálamaður sem ber öll einkenni þjóðernispopúlisma samkvæmt Eiríki og nýverið var til dæmis greint frá því á fréttamiðlum að Donald Trump héldi því fram að Joe Biden mótframbjóðanda hans væri stýrt af skuggaverum. Eiríkur segir Trump sé þó ekki yfirvegaður lygari heldur tilheyri hann þeirri tegund af popúlista sem beiti bulli. Hann reyni í raun ekki að sannfæra fólk um að annað sé rétt en staðreyndir sýni fram á og því ekki að ljúga því sem sé á skjön við raunveruleikann. Hann sé einfaldlega að bulla „og búa til annars konar upplýsingar svo hægt sé að rugla fólk í ríminu svo það átti sig ekki á hvernig ástandið sé,“ segir hann. „Það er pólitík bullsins sem beitt er til að víkja sér undan óþægindum. Í stað þess að ljúga bullarðu upp sautján valkosti sem allt eins gætu verið gildir þeim sem réttur er.“

Mild þjóðernishyggja alltaf við lýði á Íslandi

Á Norðurlöndunum hefur þessum öflum vaxið ásmegin samkvæmt Eiríki og eru samþykkt og viðtekin í flestum þessara ríkja fyrir utan kannski Svíþjóð, eða hvað? „Margir kollegar mínir í Svíþjóð skrifuðu fræðigreinar um hvers vegna þjóðernispopúlisminn náði ekki til Svíþjóðar þar til hann bara gerði það,“ segir Eiríkur. En þó Svíþjóðardemókratarnir verið öflugir þátttakendur í sænskum stjórnmálum síðan 2010 hafi þeir hafa aldrei komist til áhrifa, „öfugt við það sem gerst hefur í öllum hinum skandinavísku ríkjunum.“

Þó ekki á Íslandi. Í bókinni nefnir Eiríkur þrjár ástæður þess að þjóðernispólisma hafi ekki tekist að festa djúpar rætur hér á landi. Í fyrsta lagi nefnir hann að þjóðernispopúlistar Vestur-Evrópu hafi hafnað því kerfi sem útskúfaði þjóðernishyggju eftir stríð. Það hafi hins vegar aldrei átt við hér á landi. „Hér var þjóðernishyggju aldrei útskúfað. Við lok heimsstyrjaldar vorum við að öðlast sjálfstæði. Mild þjóðernishyggja hefur alltaf ríkt á Íslandi,“ segir hann. „Þú getur ekki skorað íslenskt stjórnmálakerfi á hólm út frá þjóðernislegum grunni þegar það er mjúk útgáfa af henni hvort eð er.“ Í öðru lagi segir hann að þær þjóðernispopúlísku hreyfingar, sem hafi vegnað vel, hafi allar státað af kraftmiklum og karismatískum leiðtoga. Það hafi hins vegar ekki tekist hér á landi. „Við höfum alveg séð marga svona flokka koma fram á sjónarsviðið en þeir hafa ekki endilega verið neitt sérlega heppnir með leiðtoga hvað þetta varðar,“ segir hann. Í þriðja lagi hafi slíkir flokkar keyrt á úlfúð í garð innflytjenda af múslímskum uppruna og bent á aukin umsvif þeirra í ýmsum hverfum. „En staðan er bara önnur hér á Íslandi. Það er hvergi hverfi sem ber svip Mið-Austurlanda og Norður-Afríku eins og þú sérð í öllum öðrum vestrænum ríkjum. Þrátt fyrir að margir reyni það er erfitt að vera í andstöðu við eitthvað sem er ekki til. Það getur verið tilvistarlega flókið.“ Hann segir hins vegar að flokkar sem beri einkenni þess að vera hálfpopúlískir hafi náð árangri og lifi ágætlega í íslensku þjóðfélagi. Staðan geti því breyst. „Það er ekki útilokað að slík öfl nái þeim árangri hér eins og annars staðar,“ segir hann að lokum.

Þröstur Helgason ræddi við Eirík Bergmann í Svona er þetta. Hægt er að hlýða á allan þáttinn hér í spilara RÚV.