Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjúkratryggingar hafa ekki afhent gögnin

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki afhent Krabbameinsfélaginu gögn sem vísað var til í Kastljósi RÚV síðastliðið fimmtudagskvöld. Þar sagði Tryggvi Björn Stefánsson læknir og fulltrúi Sjúkratrygginga að gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins hefði verið verulega ábótavant. Krabbameinsfélagið krafðist þess um helgina að fá gögnin afhent í síðasta lagi á hádegi í dag að öðrum kosti hefði það veruleg áhrif á starfsemi Leitarstöðvarinnar.

 

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að nú verði lögð áhersla á að koma málsgögnum til landlæknisembættisins. „Á þessu stigi leggjum við höfuðáherslu á að koma viðeigandi gögnum til embættis landlæknis og það er auðvitað aðalatriðið að þetta mál fái eins vandaða rannsókn og nokkur er kostur,“ segir María. Sjúkratryggingar hyggist ekki tjá sig við fjölmiðla á þessari stundu. 

María segir að vinna við að koma þessum gögnum til landlæknis sé þegar hafin. Í gær sagði framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins að starfsmenn þess teldu sig ekki geta sinnt störfum sínum hjá Leitarstöðinni á meðan þessum fullyrðingum Tryggva hefði ekki verið svarað. 

„Það er auðvitað áhyggjuefni ef Krabbameinsfélagið treystir sér ekki til að halda úti þeirri þjónustu sem því hefur verið falin,“ segir María.

Frá Krabbameinsfélaginu fengust þær upplýsingar að stjórnendur félagsins sætu á fundi þar sem farið væri yfir stöðuna og viðbrögð við því að gögnin bárust ekki á tilskildum tíma. Starfsemi Leitarstöðvarinnar verður með óbreyttum hætti í dag, að sögn upplýsingafulltrúa Krabbameinsfélagsins.