Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir Krabbameinsfélagið hafa viljað óbreytt skipulag

07.09.2020 - 20:04
Sjúkratryggingar Íslands vissu vel af áhyggjum sérfræðinga um að um of hefði verið vikið frá evrópskum leiðbeiningum um hvernig standa ætti að skimun eftir krabbameini. Þetta sagði Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir leitarsviðs Krabbameinsfélagsins í Kastljósi í kvöld.

Hægt er að horfa á allan þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan. 

Kristján segir einnig að Sjúkratryggingar hafi á hans starfstíma ekki haft eftirlit með því hvort Krabbameinsfélagið uppfyllti þjónustusamning um skimanir. Þetta komi fram í minnisblaði hans til Sjúkratrygginga. Þar segi jafnframt að eina stofnunin sem hafi sinnt eftirliti hafi verið Geislavarnir ríkisins. 

Kristján segir að Krabbameinsfélag Íslands hafi brugðist við minnisblaði frá honum til Sjúkratrygginga Íslands með því að fá verkfræðing frá Háskólanum í Reykjavík til að taka út starfsemina. Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að skimuninni væri best fyrir komið hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

„Það var kerfisbundið barist með kjafti og klóm að viðhalda skipulagi sem í raun og veru uppfyllti ekki þau skilmerki sem þurfa að vera til staðar til að geta stundað svona skipulega lýðgrundaða skimun,“ segir Kristján.

Vissu af áhyggjum

Var vitneskja um áhyggjur ykkar inni hjá Sjúkratryggingum og heilbrigðisráðuneytinu? „Hún lá inni hjá Sjúkratryggingum. Ég átti meðal annars fund með fulltrúa Sjúkratrygginga og forstjóra Sjúkratrygginga á þeim tíma og gerði grein fyrir þessum hlutum. Ég átti ekki nema einn fund inni í ráðuneytinu á sínum tíma en ég held að það hafi nú sett ákveðna hluti af stað inni í ráðuneytinu og það má alveg þakka núverandi landlækni og núverandi heilbrigðisráðherra að hafa tekið á og áttað sig á þessum hlutum sem hafa verið og skipað ákveðin fagráð og ákveðið skimunarráð.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV