Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samningar lausir í öllum álverunum

Mynd: RUV / RUV
Kjarasamningar eru lausir hjá starfsmönnum álveranna þriggja sem rekin eru hér á landi. Öll verkalýðsfélög álvers Norðuráls á Grundartanga hafa boðað verkföll frá 1. desember. Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að deilan á Grundartanga sé stál í stál.

Hér á landi eru rekin þrjú álver. Álverið í Straumsvík ÍSAL sem er í eigu Rio Tinto, Álver Norðuráls á Grundartanga og loks Alcoa á Reyðarfirði. Nú bregður svo við að samningar starfsmanna allra þessara álvera eru lausir.

Engin launahækkun

Samningar fimm félaga í Álverinu í Straumsvík runnu út 1. júní í fyrra.  Árangurslausar viðræður höfðu staðið yfir í nokkurn tíma og talsverð harka var komin í kjaradeiluna í vor og boðað var til verkfalls 24. mars. Ekkert varð af því vegna þess samið var áður en verkfall skall á. Í raun var gerður þriggja mánaða samningur til 30. júní. Launataxtar voru uppreiknaðir miðað við 1. júní 2019. Hins vegar var samið um nokkuð sérstakan fyrirvara. Samningurinn myndi framlengjast til 31. mars á næsta ári ef RioTinto, móðurfélags álversins í Straumsvík, næði að semja við Landsvirkjun um nýjan raforkusamning fyrir 30. júní í sumar. Það gekk ekki eftir og framlengdur samningur féll dauður niður og þar með 24 þúsunda króna hækkun sem átti að koma 1. júlí. Deilan er komin aftur til ríkissáttasemjara. Haldnir hafa verið tveir sáttafundir og sá þriðji hefur verið boðaður á næstu dögum. Hins vegar bólar ekkert á samkomulagi Rio Tinto og Landsvirkjunar enda hafa engar viðræður verið síðustu rúma tvo mánuði eða frá því í júní. Rio Tinto hefur kvartað til Samkeppnisstofnunar. Fyrirtækið telur að Landsvirkjun mismuni álfyrirtækjunum þremur og misnoti markaðsráðandi stöðu sína.

Viðræður hefjast á ný

Í álveri Alcoa á Reyðarfirði hefur verið boðaður samningafundur á föstudaginn. Samningar þar losnuðu í lok febrúar. Viðræður hófust en þeim var frestað í vor fram á haust. Verkalýðsfélögunum tveimur sem deilan nær til þótti ekki miða vel og að talsvert langt væri á milli aðila og þá bættist ástandið vegna COVID við.

Deilan í hnút

Og kjaradeila fimm stéttarfélaga starfsmanna í álveri Norðuráls er komin í hart. Öll félögin hafa boðað verkfall frá 1. desember. Það tekur þó nokkurn tíma að slökkva á verinu. Samningar losnuðu um síðustu áramót. Deilan snýst  um það að félögin vilja fá sömu hækkanir og samið var um í lífskjarasamningunum en laun í álverinu hafa frá 2015 miðast við þróun launavísitölunnar. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að deilan sé stál í stál.

„Já, það er stál í stál. Ástæðan er bara einföld. Við erum búin að vera kjarasamningslaus í níu mánuði og höfum fundað ótt og títt en því miður ber töluvert á milli enn þá,“ segir Vilhjálmur.

Í síðustu samningum var samið um að laun fylgdu 95% af hækkun launavísitölunnar. Nú er krafan að laun hækki um krónutölur eða í samræmi við lífskjarasamninginn.

„Það er einfaldlega þannig að lífskjarasamningurinn gagnast fólki sem er á kauptöxtum hvað best. Við viljum bara fylgja þessari línu sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði við Samtök atvinnulífsins. Við höfum gert þá skýlausu kröfu að lífskjarasamningurinn og þær hækkanir sem kveðið er á um í honum taki gildi gagnvart starfsmönnum Norðuráls.“