Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Réttað um framsal Assange til Bandaríkjanna

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Málflutningur varðandi fyrirhugað framsal Julians Assange til Bandaríkjanna hefst í London í dag. Vestra gæti hann staðið hann frammi fyrir réttarhöldum vegna birtingar gagna sem varða framferði Bandaríkjamanna í stríðunum í Afganistan og Írak.

Assange sem er 49 ára, gæti átt yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi Í Bandaríkjunum verði hann fundinn sekur um alla átján ákæruliði bandarískra saksóknara.

Þar á meðal er birting 500 þúsund leynilegra skjala tengdum Bandaríkjaher, sem Wikileaks komst yfir meðal annars fyrir tilstuðlan Chelsea Manning.

Óttast um líf Assanges

Assange virtist ráðvilltur og mjög veikburða meðan á málfutningi í febrúar stóð og lýsti yfir við dómara að hann skildi ekki um hvað málið snerist.

Lögmaður Assanges, Edward Fitzgerald, kveðst sannfærður um að skjólstæðingi hans biðu ekki sanngjörn réttarhöld í Bandaríkjunum og að hann óttaðist um heilsu hans eða jafnvel að hann gæti reynt að taka eigið líf.

Lögfræðingurinn Stella Morris, barnsmóðir og unnusta Assanges, er sama sinnis og segir framsal hans jafngilda dauðadómi, í viðtali við dagblaðið The Times.

Evrópuráðið hefur varað við því að ákvörðun um framsal Assange til Bandaríkjanna gæti haft verulega skaðleg á frelsi fjölmiðla.

Mesta öryggisógn í sögu Bandaríkjanna

James Lewis, fulltrúi Bandaríkjastjórnar, segir Assange bera ábyrgð á mestu öryggisógn í sögu Bandaríkjanna. „Það er ekki hægt að fremja glæpi og afsaka sig með því að segjast vera blaðamaður,” segir Lewis.

Búist er við að málflutningurinn fyrir glæpadómstólnum Old Bailey standi yfir í þrjár til fjórar vikur. Honum var frestað í apríl vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Nær öruggt að niðurstöðu verði áfrýjað

John Rees sem er í forsvari fyrir samtök sem berjast gegn framsali Assanges telur öruggt að málinu verði áfrýjað hvernig sem fari. Rees er þeirrar skoðunar að málsvörn Assanges sé mjög sterk en telur málið mjög litað af pólítík.

Áður en málflutningi var frestað í febrúar var fullyrt að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði heitið Assange náðun að því gefnu að hann sværi fyrir að leki á tölvu­póst­um á veg­um forsetaframboðs Hillary Clinton 2016 hefði verið fyr­ir til­stuðlan Rússa.

Forsagan

Árið 2010 var Assange sakaður um kynferðisbrot og nauðgun í Svíþjóð. Hann kom sér undan framsali þangað með því að leita hælis í sendiráði Ekvador í Lundúnum.

Þar dvaldi hann um sjö ára skeið þar til yfirvöld í Ekvador heimiluðu handtöku hans í apríl 2019.

Sænskir saksóknarar féllu frá málshöfðun gegn Assange á síðasta ári því ekki þóttu næg sönnunargögn fyrir hendi til að halda málinu til streitu.