Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ræddu möguleika á að bætur fari í launagreiðslur

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sveitarstjórnarmenn í Reykjanesbæ lögðu áherslu á atvinnumál, félagsmál og námsúrræði á fundi sínum með Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra fyrr í dag. Þeir lögðu meðal annars til við ráðherra að nota mætti atvinnuleysisbætur sem hluta af launakostnaði fyrirtækja og stofnana sem vildu ráða fólk til starfa.

Þannig mætti ýta undir tilurð nýrra starfa, segir Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. „Mér fannst svör hans vera á jákvæðu nótunum. Þetta er eitthvað sem þarf auðvitað að skoða í ráðuneytinu en við höfum lagt þetta til fyrst og fremst til að koma fólki sem fyrst í virkni.“ Hann segir að ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins þurfi að hafa hraðar hendur nú þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Fleira skipti líka máli. „Og hins vegar þá námsúrræði sem ég held að skipti miklu máli hér á svæðinu, tryggja að það sé til staðar.“

Jóhann segir að sveitarfélagið vilji líka nýta úrræði úr hruninu meðan landsmenn þreyja þorrann þar til sér út úr COVID-þokunni.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og oddviti Samfylkingarinnar, segir í samtali við fréttastofu að fundurinn með ráðherra hafi verið mjög góður. Ýmsir möguleikar í atvinnumálum og félagsmálum hafi verið ræddir og skili vonandi fljótt árangri.