Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ræða nýfundið skjal við landlækni og Krabbameinsfélagið

Mynd: Skjámynd / RÚV
Sjúkratryggingar Íslands fundu síðdegis í dag skjal sem kann að varpa ljósi á orð Tryggva Björns Stefánssonar skurðlæknis sem sagði í Kastljósi í síðustu viku að gæðaeftirlit Krabbameinsfélags Íslands hefði verið í lamasessi árið 2017. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, sagði í kvöldfréttum í sjónvarpi að fara yrði yfir tilurð skjalsins, hverjir hefðu séð það og í hvaða ferli það hefði farið.

Tryggvi Björn sagði í Kastljósi á fimmtudagskvöld að hann hefði fengið upplýsingar um að gæðaeftirlit og gæðaskráning hefði verið í molum. Þessa hefði hann orðið var þegar unnið var að kröfulýsingu. Krabbameinsfélagið óskaði upplýsinga frá Sjúkratryggingum en hafði ekki fengið afhent neitt skjal sem passaði við þetta um hádegisbil. Það virðist hafa breyst síðdegis.

Fundu skjal í dag

María, forstjóri Sjúkratrygginga, sagði í kvöldfréttum að stofnunin hefði ekki haft neina vitneskju um umfjöllun Tryggva fyrir viðtalið í síðustu viku. Hún sagði að Sjúkratryggingar viti ekki til hvaða gagna hann hafi verið að vitna. „Hins vegar kom fram skjal seint í dag sem við höfum þegar afhent Krabbameinsfélaginu og átt fund með þeim og munum fara betur yfir það skjal með þeim á fundi með landlækni á morgun.“

María sagði að skjalið væri frá því um áramót 2017/2018. Það hafi verið útbúið af Sjúkratryggingum Íslands og fjalli að nokkru leyti um árangur af þjónustusamningi Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið. María sagði að Sjúkratryggingar hyggist ræða við Tryggva um málið.

Leituðu gagna í kerfinu

„Ég held að við séum öll sammála um að staðan sem lýst var í fréttum í síðustu viku sé mjög alvarleg. Við höfum lagt allt kapp á það undanfarið að draga saman öll gögn sem við höfum um málið og erum byrjuð að afhenda þau embætti landlæknis. Það kom hins vegar ekki fram fyrr en seinni hluta dags í dag að þetta skjal væri frágengið. Það sem við höfðum fundið fram að þessu var einhvers konar vinnuskjal. Síðan komumst við að því seint í dag að þetta skjal var til frágengið.“

„Þetta er skjal sem við ætlum að fara yfir á morgunmeð Krabbameinsfélaginu og landlækni. Það lýsir kannski stöðu okkar í þessu máli að við höfum þegar falið Krabbameinsfélaginu að halda sinni þjónustu til áramóta,“ sagði María. Sjúkratryggingar hafa treyst Krabbameinsfélag til þessa sagði hún.

Fara þarf nákvæmlega yfir það hvernig skjalið kom til, hverjir sáu það á sínum tíma og í hvaða ferli það fór, sagði María í lokin.