Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neytendasamtökin krefja bankana um leiðréttingar lána

07.09.2020 - 09:13
Mynd: RÚV / RÚV
Neytendasamtökin telja að skilmálar og framkvæmd lána með breytilegum vöxtum standist ekki lög og hafa sent bönkunum bréf þar sem þess er krafist að skilmálar lánanna verði lagaðir og hlutur lántakenda leiðréttur.

Þetta segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna sem var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Breki segir að skilmálar lánanna séu óskýrir. Þeir nái yfir allflest lán sem tekin eru hér á landi því einungis örfáar tegundir lána séu veittar með föstum vöxtum út lánstímann. Samtökin hafa gefið bönkunum frest til 24. september til að bregðast við, að öðrum kosti verði farið fyrir dómstóla. 

Breki segir að það sé einkenni á ósanngjörnum skilmálum ef annar getur breytt samningnum en hinn getur ekki séð hvort breytingin sé réttmæt. „Þannig er með þessa breytilegu vexti. Þegar vextir breytast geta lántakendur ekki séð hvort breytingin sé réttmæt. Þessir skilmálar eru bara allt of víðtækir og það eru teknir þættir eins og arðsemiskrafa bankanna, útlánatap, ófyrirséðir kostnaðarþættir og þetta eru matskenndir þættir sem Evrópudómstóllinn hefur komist að niðurstöðu um að séu ekki lögmætir.“ 

Þetta gætu verið allt að 75.000 lán og að milljarðar króna væru í spilinu. 

„Ég vonast til að við þurfum ekki að fara dómstólaleiðina og að bankarnir sjái ljósið,“ sagði Breki.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir