Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Maður í öryggisvistun kærður fyrir líkamsárás á barn

07.09.2020 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ósakhæfur maður sem vistaður er í öryggisvistun á Akureyri hefur verið kærður fyrir líkamsárás gegn átta ára dreng. Rannsókn málsins er á frumstigi en lögreglan lítur málið alvarlegum augum.

Drengurinn átta ára og á leið heim úr skólanum

Í Hafnarstræti á Akureyri er rekin öryggisvistun fyrir ósakhæfa einstaklinga. Úrræðið hefur verið rekið síðan 2013 og þar búa nú þrír einstaklingar sem hlotið hafa dóma.

Atvikið varð á mánudaginn í síðustu viku. Drengurinn sem varð fyrir árásinni er átta ára gamall og var á leið heim úr skólanum þegar skjólstæðingurinn sem er á tuttugasta og öðru aldursári réðst á hann og tók hann kverkataki. Karólína Gunnarsdóttir, sviðstjóri búsetusviðs Akureyrar harmar atvikið.

„Mikið fatlaður maður sem býr þarna inni í Hafnarstræti er sem sagt úti á gangi rétt fyrir utan heima hjá sér og er eins og alltaf með tvo starfsmenn með sér og gerir í rauninni það sem hann gerir aldrei. Hann stekkur í burtu og þá gerist þetta með þessum hörmulegu afleiðingum,“ segir Karólína. 

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað gerist nema við vitum bara að þeir eru rétt hjá honum eins og þeir eiga að vera og sjálfu sér ekkert sem þeir eru að gera sem er rangt, þetta er náttúrlega hörmulegt slys.“

Lögreglan lítur málið alvarlegum augum

Bergur Jónsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri segir að málið sé litið mjög alvarlegum augum. Hann staðfestir að kæra hafi borist frá aðstandendum barnsins og að rannsókn málsins sé á frumstigi. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málsatvik. 

Heimilið er nú staðsett inn í íbúðarhverfi. Karólína segir það ekki heppilegt en til skoðunar er að flytja úrræðið.

„Þegar þetta var staðsett þarna þá auðvitað var ekki öll þessi byggð þarna. Það voru mikið færri hús, það var keiluhöll og það var í rauninni ekki mikið af barnafólki þarna og þetta gekk ágætlega.“

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson