Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögreglan fær húsnæði sem losnar við lokun fangelsisins

07.09.2020 - 17:56
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bætt verður við fjórum stöðum hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra í kjölfar lokunar fangelsinsins á Akureyri. Þá verða gerðar breytingar á húsnæðinu til að mæta aukinni húsnæðisþörf lögreglunnar.

Eins og RÚV hefur greint frá verður fangelsinu á Akureyri lokað í næstu viku. Sex manns missa þar með vinnuna og Gestur Ragnar Davíðsson, varðstjóri í fangelsinu, segir að við taki biðlaunaréttur. Lokunin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af bæjaryfirvöldum á Akureyri og Lögreglufélagi Eyjafjarðar.

Dómsmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verði styrkt um fjórar stöður lögreglumanna til að sinna almennri löggæslu í umdæminu. Þá verði nú minnst tveir sérsveitarmenn með fasta búsetu á Akureyri í stað eins sérsveitarmanns eins og nú er.

Húsnæði fangelsisins verði endurnýjað og því breytt til að mæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar. Breytingarnar hafi verið settar á framkvæmdaáætlun næsta árs. Áfram verði tryggt að lögreglan á Norðurlandi eystra geti nýtt sér úrræði til gæsluvarðhaldsvistar á staðnum þegar þörf krefur.

Í tilkynningu Dómsmálaráðuneytisins segir að tilgangur fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins á Akureyri hafi verið að auka hagkvæmni í rekstri fangelsiskerfisins í heild ásamt því að stytta boðunarlista eftir fangelsisvist í landinu. Ýmsir þættir hafi orðið til þess að mikilvægi fangelsisins hafi minnkað verulega á undanförnum árum.