„Samningurinn þarf að liggja fyrir á þeim tíma til að hann geti tekið gildi fyrir áramót," sagði Johnson. Forsætisráðherrann vildi lítið gera úr áhyggjum manna af mögulegri óreiðu í efnahagsmálum ef ekki yrði af samningi.
Að sögn Johnsons býst hann við að Bretar fái samkomulag á borð við það sem sambandið hefur gert við Ástrali eða Kanada náist ekki niðurstaða nú. Það er í andstöðu við fyrri yfirlýsingar um að Bretar muni aðeins sætta sig við núllkvóta og tollalaus viðskipti. Samningur Ástrala byggir hinsvegar á tollareglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Sérfræðingar telja liklegt að yfirlýsing Johnsons verði gagnrýnd mjög af þeim sem ekki vildu kveðja Evrópusambandið. Þau muni fullyrða að Johnson og ríkisstjórn hans hafi séð fyrir sér að samningaviðræðum gæti lyktað án niðurstöðu, þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða.
Áttunda lota samningaviðræðna Breta og Evrópusambandsins hefst nú í vikunni. Evrópusambandið hefur lengi álitið samkomulag þurfa að nást fyrir miðjan október. Þýða þurfi samninginn og staðfesta af hálfu Evrópuþingsins.
David Frost aðalsamningamaður Breta heitir löndum sínum að engar málamiðlanir verði gerðar, hvergi muni hvikað frá meginmarkmiðum þeirra í viðræðunum.
Michel Barnier fulltrúi Evrópusambandsins segir viðræðurnar standa eða falla með samkomulagi um aðgang sambandsins að breskum fiskimiðum og reglum um ríkisaðstoð. En Bretar séu harðir í horn að taka.