Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair aflýsir 73% ferða – erlendu félögin sárafáum

07.09.2020 - 18:17
Mynd: Sigurður K. Þórisson / RÚV
Icelandair hefur fellt niður þrjár af hverjum fjórum ferðum á áætlun sinni í september. Á sama tíma hafa erlend flugfélög fellt niður fjögur prósent Íslandsferða sinna og flogið þrefalt meira til og frá Íslandi en Icelandair. Forstjóri Icelandair segir félagið ekki hafa efni á að fljúga hálftómum vélum og tapa á ferðunum.

Frá 1. september til og með deginum í dag voru 135 flugferðir til og frá Keflavíkurflugvelli á áætlun Icelandair, en aðeins 37 þeirra voru flognar, þar af fjórar til og frá Boston sem ríkið greiðir fyrir samkvæmt samningi. Hinar 98 voru felldar niður, eða 73 prósent ferðanna – mest var 26 ferðum aflýst á einum degi ef báðar leiðir eru taldar.

Af hverju?
„Af því að eftirspurnin er mjög lítil vegna mikilla ferðatakmarkana hingað til Íslands,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Get ekki svarað fyrir önnur flugfélög“

Myndin er hins vegar allt önnur hjá erlendum félögum sem hingað fljúga. Á sama tímabili hafa 118 ferðir til og frá Keflavík verið á áætlun þeirra, flestar hjá Wizz Air, en einnig EasyJet, SAS, Transavia, Lufthansa og fleirum. 113 þessara 118 ferða hafa verið farnar en aðeins fimm aflýst, um fjórum prósentum – öllum 1. og 2. september.

Er ekki skrýtið að flugfélag með heimamarkaðsforskot þurfi að fella niður flug, en önnur félög geti haldið áætlun?
„Við bara getum ekki flogið flug þar sem eru fáir farþegar og mjög lítil eftirspurn og við getum ekki flogið flug í taprekstri. Það bara gengur ekki upp til lengdar og ekki heldur til skemmri tíma í þessari stöðu sem við erum í núna og við stillum áætlunina af miðað við það. En eins og ég segi: Ég get ekki svarað fyrir önnur flugfélög.“

Þetta tap blasir oft við í ferðum þegar vel innan við 40 til 50 prósent sæta í vélinni eru seld, að sögn félagsins.

Neytendasamtökin hvetja fólk til að sækja rétt sinn

Mörgum þessara ferða hefur verið aflýst með fáeinna daga fyrirvara.

Getið þið ekki séð þetta fyrir með meiri fyrirvara?
„Nei, ástandið er mjög kvikt eins og við höfum sagt í gegnum þetta allt saman og við þurfum að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara, sjá hvernig flæðið er að breytast og þannig þurfum við að stýra þessu.

Neytendasamtökin telja að fólk sem átti bókað í þessar ferðir eigi rétt á bæði endurgreiðslu og skaðabótum og hafa hvatt fólk til að sækja rétt sinn. Bogi segir félagið munu greiða viðskiptavinum í samræmi við reglur.