Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjölgar í heitum pottum með rýmkun samkomutakmarkana

07.09.2020 - 20:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sundleikfimin hefst á ný og fleiri komast í heitu pottana í sundlaugum eftir að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar, segir Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar. Í morgun vék tveggja metra reglan fyrir eins metra reglu og fjöldatakmarkanir voru rýmkaðar. Í gær máttu mest 115 fullorðnir sundgestir vera í Vesturbæjarlaug í einu en í morgun 172. Við það bætast börn sem ekki teljast með í fjöldatakmörkunum.

Áður var miðað við 50 prósent nýtingu lauganna en nú 75 prósent.

„Maður finnur minna fyrir þessu þegar sólin lætur ekki sjá sig. Þetta var aðallega erfitt þegar veðrið er gott,“ segir Anna Kristín um áhrif samkomutakmarkana. Þegar sólin lék við landsmenn vildu fleiri komast í sund eða heita potta og vera þar lengur heldur en þegar skýjað er og jafnvel rigning.

Þrátt fyrir að fleiri komist í sund breytist ekki allt. Þannig er ekki búið að draga fram sólbekki, borð og stóla sem fjarlægðir voru þegar gripið var til sóttvarnaraðgerða. Ekki er búið að fjölga snertiflötum.

Anna Kristín segir að það sem hafi reynst bæði viðskiptavinum og starfsmönnum erfiðast hafi verið að fara eftir og framfylgja tveggja metra reglunni í heitu pottunum. Hún segir að þetta hafi þó lagast með tímanum þegar fólk hafi lært betur á aðstæður.

Samsetning sundgesta hefur breyst mikið í faraldrinum. Erlendir ferðamenn voru áberandi en þeir hafa því sem næst horfið. Fastagestirnir hafa hins vegar haldið áfram komum sínum í laugina.