Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fangelsinu á Akureyri lokað 15. september

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Fangelsinu á Akureyri verður lokað í næstu viku. Varðstjóri segir hljóðið í sínu fólki þungt en sex starfsmenn missa vinnuna. Hann telur það vera mistök að loka fangelsinu.

Gestur Ragnar Davíðsson, varðstjóri í fangelsinu á Akureyri, staðfestir að fangelsinu verði lokað þann 15. september. Hann hafi fengið tíðindin rétt fyrir hádegi í dag og dómsmálaráðherra ætli að gefa út tilkynningu þess efnis seinnipartinn. 

Hann segir þungt hljóð í sínu fólki, sex starfsmenn missi vinnuna þann 15. og þá taki við biðlaunaréttur. Hann segist hafa átt von á því að hætt yrði við lokunina. Þessi eining hafi skilað hvað bestum árangri í fangakerfinu og þetta sé þjónusta sem þurfi að vera á Norðurlandi. Ákvörðunin hafi verið tekin en enn eigi hann eftir að sjá forsendur fyrir henni. Hann telji það vera mistök að loka fangelsinu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tilkynnti um lokunina í júlí. Með henni átti að nýta betur það fjármagn sem fer í rekstur fangelsa. Lokunin var harðlega gagnrýnd og meðal annars bent á samlegðaráhrif lögreglunnar á Norðurlandi eystra og fangelsisins.

Sjá einnig: Segir fangelsislokun setja löggæslu á NA-landi í uppnám

Ráðherra frestaði þá lokuninni til 15. september og óskaði eftir því að það yrði lagt mat á hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Akureyri vegna fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins þar, þar sem lögreglan hefur nýtt sér þjónustu fangavarða í gegnum árin.

Ekki náðist í Áslaugu Örnu við vinnslu fréttarinnar.