Erum að ná tökum á faraldrinum þökk sé aðgerðum

07.09.2020 - 15:06
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að það væri ánægjulegt að sjá að nú væru yfirvöld að ná tökum á faraldrinum.

„Þetta hefur tekist með þeim aðgerðum sem hér hafa verið í gangi. Það er fyrst og fremst með aðgerðum hér innanlands sem okkur hefur tekist að beygja kúrfuna niður og svo einnig með þeim aðgerðum sem við höfum á landamærunum sem við höfum komið í veg fyrir að smit berist inn í landið,“ sagði hann. Þá væri nokkuð augljóst að eftir því sem fleiri smitum væri hleypt inn til landsins ykjust líkurnar á því að smit breiddist milli fólks.

Faraldurinn í vexti víða og hlutfallslega greinast fleiri ferðamenn en áður 

Hann sagði að það hefði dregið úr virkum smitum á landamærunum vegna þess að nú kæmu færri til landsins. Hlutfallslega greindust fleiri ferðamenn smitaðir á landamærunum en áður en þó væri heildarfjöldi smita sem þar greinast færri en áður.  

Þórólfur þakkaði aðgerðum stjórnvalda þá góðu stöðu sem nú er uppi. „Og ég held að það sé hollt að muna það núna, þegar umræðan er að aukast mjög mikið og gagnrýni á það sem verið er að gera, að sú staða sem við erum í núna er fyrst og fremst vegna þeirra aðgerða sem við höfum verið að grípa til. Ég held að menn þurfi að muna það. Það er vert að skoða þetta í því ljósi að faraldurinn er í aukningu í mörgum löndum og í mörgum löndum er verið að grípa til harðari aðgerða, bæði innanlandsaðgerða og á landamærum. Þannig að ég held við getum mátað okkur aðeins í því ljósi,“ sagði hann. 

Þá sagði hann að þeir sem töluðu um að eðlilegt væri að hleypa veirunni í auknum mæli til landsins þyrftu að spyrja sig nokkurra spurninga: „Hver er ásættanlegur fjöldi sýkinga hér á landi? Hvað er ásættanlegt að margir leggist inn á sjúkrahús? Hvað er ásættanlegt að margir látist? Þetta er það sem við þurfum að horfast í augu við ef við ætlum að hleypa veirunni í meira mæli hingað inn.“ 

„Við erum að spila með líkur“ 

Þórólfur sagði að nú heyrði hann talað um að stefna sóttvarnaryfirvalda væri ekki skýr. „Það hljómar undarlega í mínum huga, ég hélt hún væri nokkuð skýr.“ Hann sagði að í fyrsta lagi hafi sóttvarnaryfirvöld viljað nýta þá kunnáttu sem hefur verið aflað síðustu mánuði. Þau vildu fletja kúrfuna eins mikið og hægt er innanlands með innanlandsaðgerðum og aðgerðum á landamærum. Þá vildu þau koma í veg fyrir að veiran bærist hingað til lands með eins áhrifaríkum og lítt íþyngjandi aðgerðum og mögulegt væri. „Og með þessu teljum við að það sé hægt að minnka verulega líkurnar á að veiran berist hingað til lands,“ sagði hann. Þá benti hann á að engar aðgerðir kæmu fullkomlega í veg fyrir að veiran gæti borist hingað: „Þannig að við erum að spila með líkur.“ 

Þá útskýrði hann hvers vegna tekin hefði verið upp sóttkví í stað heimkomusmitgátar. „Við sáum að fólk átti erfitt með skilja út á hvað þetta gekk og fór því ekki eftir því sem var verið að biðja það um. Og í ljósi þess að við sáum fjölda þeirra sem var að greinast við seinni skimun fannst okkur rétt að taka upp sóttkví,“ sagði hann.  

Engin merki um vægari veiru 

Þá sagði Þórólfur að það væru engin merki hérlendis eða erlendis um að faraldurinn væri vægari en í vetur. Það væri minna um dauðsföll af ýmsum orsökum, til dæmis væru frekar ungir að veikjast og nú hefði fólk með undirliggjandi sjúkdóma haldið sig til hlés. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi