Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ekkert annað en mismunun á grundvelli fötlunar“ 

07.09.2020 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþingi felldi fyrir helgi tillögu minni hluta velferðarnefndar um að úrræði um greiðslu launa í sóttkví nái til fólks sem annast fötluð eða langveik börn og getur ekki sinnt vinnu vegna skerðingar á lögbundinni þjónustu hins opinbera við þau vegna faraldursins. Þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn tillögunni en þingmenn stjórnarandstöðunnar með henni.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, segir að ákvörðunin sé „ekkert annað en mismunun gagnvart þessum hópum“. Stuðningsfélagið Einstök börn gagnrýnir ákvörðunina harðlega í færslu á Facebook.

Furðar sig á því að ríkið geti ekki mætt þessum hópi 

„Fatlað fólk á lagalegan rétt á þjónustu af hálfu hins opinbera. Þegar skólar loka og þjónusta sem fólk með fötlun á rétt á leggst af vegna sóttvarnarráðstafana verður það að vera heima en getur ekki, vegna fötlunar eða veikinda, verið eitt heima. Það leiðir til þess að aðstandendur þurfa að breyta sínu lífi. Það þarf að horfa á það sérstaklega hvernig er hægt að koma til móts við þennan hóp,“ segir Árni. Mikilvægt sé að halda því til haga að þjónustan sem fellur niður er ekki „einhver góðmennska ríkisins“ heldur lagaleg réttindi og mannréttindi fólks. „Okkur finnst mjög skrítið að ríkið geti ekki staðið undir þessari skyldu og mætt þessum hópi.“ 

Aðspurður segist Árni ekki vita til þess að fólk sem missir úr vinnu vegna þess að það sinnir fötluðum eða langveikum hafi nein úrræði til að tryggja afkomuöryggi. „Okkur berast margar fyrirspurnir um þetta og það er ljóst að ástandið bitnar harðast á þeim sem síst skyldi,“ segir hann. Stjórnvöld hafi haft marga mánuði til að velta þessu fyrir sér. „Þetta hlýtur að vera forgangsmál ef stjórnvöld ætla að taka mannréttindi alvarlega,“ segir hann. 

Foreldrar fengu eingreiðslu upp á 25.000-33.000 í sumar

Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar er ákvörðunin um að hafna tillögunni rökstudd með því að í sumar hafi verið brugðist við vanda þessa hóps með breytingu á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna og þeim veitt eingreiðsla sem nemur 25 prósentum af umönnunargreiðslum fyrir einn mánuð. Í nefndaráliti Helgu Völu Helgadóttur, formanns velferðarnefndar, vegna tillögunnar kemur fram að fjárhæð til foreldra fyrir allt að þriggja mánaða fjarveru hafi verið á bilinu 25.000 til 33.000 krónur.  

Í áliti Helgu Völu kemur einnig fram að umsóknir um greiðslur launa í sóttkví hafi verið umtalsvert færri en áætlað var. Kostnaður sem fellur til vegna úrræðisins virðist vera um það bil 190 milljarðar króna en kostnaðarmat með úrræðinu hafi hljóðað upp á 600-700 milljarða króna. Þegar Alþingi samþykkti að foreldrar sem misstu úr vinnu vegna þess að börn þeirra þyrftu að vera í sóttkví fengju laun í fjarveru frá vinnu, hafi skapast umræða um foreldra langveikra og mikið fatlaðra barna sem þyrftu sólarhringsþjónustu. „Þau börn hafa mörg hver þurft að dvelja heima án skólaþjónustu eða annarrar daglegrar þjónustu frá því að faraldurinn hófst án þess að vera sjálf í sóttkví,“ segir í álitinu.  

Vonast eftir einhverju stórkostlegu frá félagsmálaráðuneytinu 

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur einnig fram að félagsmálaráðuneytið hafi „haft þessi mál til skoðunar um nokkra hríð“. Árni segir að ekki hafi verið haft samráð við Þroskahjálp vegna þessarar vinnu og félagið viti ekki hvers konar vinna fer nú fram í ráðuneytinu. „Við vonum að það sé eitthvað stórkostlegt á leiðinni þaðan,“ segir hann.  

Einstök börn gagnrýna ákvörðunina 

Í færslu sem Einstök börn, stuðningsfélag barna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni, setti á Facebook á fimmtudag segir að hópurinn sem málið varðar sé ekki stór: „Þetta hefði ekki verið kostnaðarsöm breyting í heildarmyndinni en getur haft svakaleg áhrif á fjárhag fjölskyldu“. Félagið segist ekki gefast upp: „Við hættum ekkert – höldum áfram og krefjumst áheyrnar stjórnvalda enn og aftur.“