
Eins metra regla hefur tekið gildi
Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sendi til ráðherra á miðvikudag.
Nú mega sundlaugar og líkamsræktarstöðvar einnig taka á móti 75% af hámarksfjölda gesta í stað helmingsfjölda áður. Þá er snerting heimiluð í íþróttum, sviðslistum og annarri menningarstarfsemi, en um áhorfendur gilda 200 manna takmarkanir í rými og eins metra regla.
Meðal þeirra sem hafa brugðist við nýjum reglum er Knattspyrnusamband Íslands, en nú er aðildarfélögum aftur heimilt að skipta leikvangi í hólf ef hægt er að tryggja eins metra reglu og að hámarki 200 mann í hverju hólfi. Það á þó ekki við um börn fædd árið 2005 eða síðar eins og kemur fram í tilkynningu KSÍ.
Opnunartími vínveitingastaða verður áfram takmarkaður til kl. 23.00, en þessi nýja reglugerð gildir til miðnættis 27. september.