Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég held ég virki betur en Tinder“

Mynd: . / Facebook

„Ég held ég virki betur en Tinder“

07.09.2020 - 15:10

Höfundar

Það þarf ekki að vera slæmt að upp undir helmingur allra hjónabanda endi með skilnaði, segir Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi. Hún ræddi hjónabandið og stöðu þess í samtímanum við Önnu Gyðu Sigurgísladóttur í þættinum Glans.

„Hvert einasta mál sem ég fæ inn á mitt borð er ólíkt öðrum. Það er eins og að setja nýja spólu í tækið í hvert skipti,“ segir Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur. „Stundum er framhjáhald, stundum er áfengisneysla, og stundum eru samsettar fjölskyldur með flókin stjúptengsl. En ég hugsa aldrei, ahh þetta er svona par, og ég hugsa aldrei þau eiga eftir að skilja út af þessu.“

Kristín segist ekki geta komið með lausnirnar fyrir fólk eða sagt því hvað það á að gera. „Ég get bara stutt það og hjálpað því að velta við steinum. Reyna að skapa sér einhverjar vörður á leiðinni að betra sambandi, eða þá að skilja.“ Kristín skrifaði lokaritgerð sína í opinberri stjórnsýslu um hjónabandið sem stofnun og mikilvægi þess í samfélaginu. Hún segir að hið opinbera kerfi ýti undir pörun, það sé fjárhagslega hagkvæmt. „Þá tökum við ábyrgð á ungabörnum ef það er ekki til dagvistunarpláss, við hugsum um foreldra okkar áður en þau fara inn á hjúkrunarheimili. Við brúum alls konar brýr sem eru annars kostnaðarsamar fyrir hið opinbera.“ Hún myndi hins vegar aldrei segja að það væri slæmt fyrir samfélagið að það sé eðlilegt að skilja.

Eyðum meiri tíma í að velja hund en maka

Árið 1958 var skilnaðartíðnin 8% en í dag er hún nálægt 50%, þannig að um það bil annað hvert hjónaband endar með skilnaði. „Ég myndi segja að þannig viljum við hafa það. Við viljum ekki að fólk sé í samböndum sem það vill ekki vera í, og sé óhamingjusamt.“ Fyrir 70 árum skildi fólk aðallega vegna efnahagslegra þátta eða mjög alvarlegra vandamála, eins og ofbeldis eða áfengisneyslu. „En í dag er það meira á tilfinningalegum nótum, ef fólki líður ekki vel, eða fær ekki það sem það telur sig þurfa út úr sambandi velur það að skilja.“ Þar spili inn í að ástarsamband hafi einna mest áhrif á heildarhamingju fólks.

Kristín segir að aldur við hjónaband skipti ekki öllu máli, heldur frekar hugsunin á bak við það. „Ég hef stundum gert grín að því að fólk mætti vanda sig meira við að velja sér maka. Við vöndum okkur rosalega við að velja hundategundir, þá skoðum við ættbækur og prófum mismunandi tegundir. Hesta líka. En mér finnst stundum parsambönd þróast af tilviljun.“ Hún hafi lesið kenningar þess efnis að það þurfi tvö ár til að komast að því hvort við séum ástfangin. „Það villir fyrir okkur þessi gleðihormón sem við framköllum, ímyndin um gott parsamband. Svo heyri ég stundum: „Guð, ég get ekki farið að hætta með honum núna, ég er búin að hitta alla fjölskylduna hans.“ Þannig að fólki finnst það kannski hafa vaðið aðeins of hratt inn í eitthvað, vill ekki valda vonbrigðum eða særa einhvern.“

Ekki vont fyrir börn að foreldrar þeirra skilji

Hún telur að hjónabandsráðgjafar séu vannýtt auðlind í þessum efnum. „Mér finnst að ég eigi að vera í þessu. Ég held ég virki betur Tinder. En aðalllega í að hjálpa fólki að hjálpa sér. Mér finnst fólk sem er á lausu allt of lítið leita til hjónabandsráðgjafa.“ Hún segir eitt helsta hlutverk sitt felast í að ráðleggja um praktíska hluti, eins og umönnun barna. „Mér finnst æðislegt þegar hægt er að finna lausnir á þessum praktísku málum og draga þannig úr rifrildum, og byrja þannig að vinda ofan af einhverju.“ Erlendar rannsóknir segja að tvö algengustu svör para um hverju þau vilji breyta í sambandinu þá eru algengustu svör karlmanna meira kynlíf, minna rifrildi, en algengustu svör kvenna séu meiri nánd og meiri vinátta. „En í raun og veru er þetta allt á sama teningnum.“

Skilnaðartíðni hefur staðið í stað síðasta áratug og Kristín segir að þessar tölur séu líka villandi, því fólk gifti sig síður. „Það er margrannsökuð mýta að það sé vont fyrir börn að foreldrar þeirra skilji. Það er vont fyrir börn að alast upp við togstreitu í sambandi foreldra sinna. Þá erum við ekkert bara að tala um hávaðarifrildi eða drykkju, heldur bara óhamingju í parsambandi foreldra. Börn skynja það og þau læra líka að vera í parsambandi af foreldrum sínum.“ Framtíðarvellíðan barna velti í raun mjög á hvernig foreldrar þess takast á við óhamingjusamt samband. „Ef foreldrar barns skilja frekar en að alast upp í togstreitu mælast börnin með meiri vellíðan til framtíðar. Börn sem alast upp í hamingjusömu sambandi foreldra sína borin saman við börn sem alast upp við skilnað, það mælist ekki munur á vellíðan ef liðin eru tvö ár frá skilnaði.“

Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við Kristínu Tómasdóttur í Glans en þátturinn er aðgengilegur í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Brúðguminn hafði ekki hugmynd um brúðkaupið

Popptónlist

„Sævar, ég var að spila í vitlausu brúðkaupi“

Menningarefni

Vildi ekki „kasta hjónabandinu á sorphaugana“

Sjónvarp

Opna hjónabandið upp á gátt