Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

5.600 tonnum af þorski hent í sjóinn árið 2017

07.09.2020 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Aukning var á brottkasti botnfiska 2016-2018, samkvæmt nýrri samantekt Hafrannsóknastofnunar. Árið 2017 var brottkast á þorskveiðum með botnvörpu það mesta sem mælst hefur. Sviðsstjóri hjá Hafró segir áhyggjuefni að sjá svo mikla aukningu.

Hafrannsóknastofnun hefur mælt brottkast á þorsk- og ýsuveiðum frá 2001 og birtir nú niðurstöður mælinga á brottkasti á veiðum í net, línu og botnvörpu frá 2016-2018.

Mismikið brottkast eftir veiðarfærum

Brottkast á bæði þorski og ýsu jókst töluvert á togveiðum með botnvörpu á þessum tíma. Svipað brottkast var á þorski við netaveiðar og undanfarin ár, en þó var brottkast 2018 hærra en langtímameðaltal. Í heildina var minna  um brottkast á línuveiðum á ýsu og þorski, en þar jókst þó brottkast á ýsu árið 2017.

Mesta brottkast á botnvörpuveiðum sem mælst hefur

Árið 2017 mældist mesta brottkast á þorskveiðum með botnvörpu sem mælst hefur á veiðum með því veiðarfæri. Brottkast á þorski við línu- og botnvörpuveiðar er samtals talið hafa verið 5.658 tonn það ár og þar af er brottkast á veiðum með botnvörpu 5.274 tonn. Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun segir aukið brottkast á þorski við botnvörðuveiðar koma á óvart. „Þar sem þetta er orðið töluvert hátt miðað við það sem við höfum séð áður. Þannig að það er að vissu leyti áhyggjuefni.“  

Niðurstöðurnar sýni að vakta þurfi þetta betur

Þessar mælingar eru unnar í samstarfi við Fiskistofu þar sem borinn er saman veiddur afli um borð og síðan landaður afli. Guðmundur segir sömu aðferðir hafi verið notaðar þessi þrjú ár og áður og aukninguna megi því ekki rekja til breyttra vinnubragða. „Fyrst og fremst er eftirlitið á framkvæmd Fiskistofu. Hafrannsóknastofnun kemur ekki beint að því. En vissulega benda þessar niðurstöður til þess að það þurfi að vakta þetta betur og reyna að komast að ástæðunum að baki þess af hverju þetta er að aukast.“

Fjármagn til eftirlits með brottkasti skorið niður

Guðmundur segir að verulega hafi dregið úr fjármagni sem veitt er í eftirlit sem hófst um aldamótin með átaki við mælingu á brottkasti. „Þar af leiðandi höfum við ekki eins nákvæmar og miklar mælingar og við höfðum áður. Og þetta er eiginlega orðið þannig að nú er mælt á tveggja til þriggja ára fresti í staðinn fyrir á hverju ári áður. Þannig að við sjáum breytingarnar ekki jafn hratt og áður.“
„Vildir þú sjá meira fjármagn í þetta og sterkara eftirlit?“
„Ég held að við getum ekki lagst á móti því. Það er mjög æskilegt að þetta sé kannað vel og það séu traustar mælingar á þessu.“