Toppbaráttan harðnar eftir sigur Breiðabliks

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Toppbaráttan harðnar eftir sigur Breiðabliks

06.09.2020 - 21:45
Eftir sterka byrjun hjá nýliðunum gegn Breiðabliki tóku gestirnir að lokum öll völd og unnu sannfærandi sigur.

Síðasti leikur dagsins í Pepsi Max deild kvenna fór fram í Laugardalnum í kvöld þegar að Þróttur R. tók á móti Breiðabliki á heimavelli sínum. Breiðablik tapaði mjög óvænt síðasta leik sínum í deildinni þegar að Selfoss varð fyrsta liðið til að vinna þær, var það líka fyrsti leikurinn í ár sem Breiðablik fékk á sig mark. Heimakonur byrjuðu leikinn af miklu krafti og ógnuðu reglulega marki gestanna. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn þyngdist sókn Breiðabliks og áttu þær bæði skot í slá og stöng. Að lokum náðu þær að skora en það gerði Alexandra Jóhannsdóttir með góðum skalla. Í kjölfarið gerði Þróttur aðra atlögu að marki Breiðabliks en þegar flautað var til hálfleiks var staðan 0 - 1 Breiðablik í vil. 

Breiðablik tók öll völd á vellinum í seinni hálfleik og á 56. mínútu skoraði Agla María Albertsdóttir annað mark þeirra eftir vel útfærða aukaspyrnu. Stuttu síðar skoraði Alexandra annað mark sitt eftir frábæra fyrirgjöf frá Karólínu Leu. Agla María gulltryggði svo sigur Breiðabliks með öðru marki sínu eftir að Sveindís Jane hafði prjónað sig í gegnum vörn Þróttara. 

Breiðablik situr í öðru sæti deildarinnar eftir sigurinn en liðið er einu stigi á eftir Val en á leik til góða. Þróttur R. er í áttunda sæti deildarinnar og aðeins einu stigi fyrir ofan FH.